*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 7. mars 2018 10:47

Segir staðfest að valdið sé ráðherrans

Dómsmálaráðherra stóð af sér vantrauststillögu og segir stjórnarandstöðuna misskilja þrískiptingu ríkisvaldsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á hana, sem felld var í gærkvöldi, sýni að valdið til að skipa dómara eigi að vera í höndum ráðherra, en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd.

„Ráðherrann er hægt að draga til ábyrgðar eins og flutningsmenn reyna að gera með þessum hætti. Hæfnisnefndir verða ekki dregnar til ábyrgðar,“ sagði Sigríður í samtali við Morgunblaðið, en vantrauststillagan var felld með 33 atkvæðum stjórnarliða á móti 29 atkvæðum.

„Ég er bara ánægð með að hafa það staðfest að ég njóti trausts þingsins og þakklát fyrir að það hafi komið fram.“

Tveir stjórnarliðar kusu með vantrauststillögunni, þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Auk þeirra sat einn þingmaður stjórnarandstöðunnar, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hjá við atkvæðagreiðsluna.

Dómsmálaráðherra sagði við umræðuna um vantraustið, sem Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar var fyrsti flutningsmaður að, að hún hefði talið að ekki hefði verið gefið nægilegt vægi í mati hæfnisnefndar dómarareynsla umsækjenda. 

Jafnframt sagði hún að við breytingu sína á dómurum sem hún lagði til við þingið hefði hlutur karla og kvenna í Landsrétti jafnast. Hún segir að hún hafi innt af hendi viðamikla rannsókn á umsóknum og öðrum gögnum og talið sig hafa rannsakað málið nægjanlega, þó Hæstiréttur hafi ekki talið svo vera.

„Þessi tillaga um vantraust sem við ræðum hér sýnist mér til marks um að háttvirtir flutningsmenn uni ekki niðurstöðu dómstóla og vilji fá einhverskonar ábót á dómsniðurstöðuna. Menn hafa reynt að kreista slíka ábót út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umboðsmanni Alþingis,“ sagði Sigríður.

„Þegar menn telja nú dóm Hæstaréttar frá því í desember vera tilefni til afsagnar minnar eða vantrausts Alþingis á mér þá er á ferðinni einhver misskilningur um þrígreiningu ríkisvaldsins. Ráðherra hefur ekki síðasta orðið um túlkun á lagareglum þegar hann tekur sínar ákvarðanir. 

Þegar um matskenndar reglur er að ræða og ágreiningur er um túlkun þeirra kemur auðvitað fyrir að niðurstaða stjórnvalds sé borin undir dómstóla og það eru dómstólar sem hafa þá lokaorðið. Þetta á ekki síst við um ýmsar matskenndar reglur stjórnsýsluréttarins. 

Jafn eðlilegt er að stundum dæmi dómstólar stjórnvaldi, ráðherra, sveitarfélagi, ríkisstofnun, í óhag. Dómstólar eru stundum ósammála. Þar er einfaldlega réttarríkið að verki og við höfum komið okkur saman um að una niðurstöðunni.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim