Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir meirihlutann hafa tekið pólítíska ákvörðun um staðsetningu aðalskiptistöðvar Strætó án þess að faglegt mat liggi fyrir um kosti og galla ólíkra valkosta í þessu sambandi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun þá var á fundi borgarráðs í gær samþykkt að efna til samkeppni vegna þróunar samgöngumiðstöðvar á lóðinni Vatnsmýrarvegi 10. (BSÍ-lóðinni).

„Í þessu máli er til annað sjónarmið en það sem kemur fram í fréttatilkynningu frá borginni,“ segir Kjartan. „Ég tel að uppbygging aðalskiptistöðvar á þessum stað sé vanhugsuð og tel a.m.k. að áður en slíkt sé gert, þurfi að fara fram faglegt mat á því hvaða staður í borginni henti best fyrir slíka miðstöð til framtíðar.“

Erlendis staðsetning valin út frá miðju íbúadreifingar

Kjartan segir að erlendis sé uppbygging slíkra staða oftast fundinn miðpunktur miðað við íbúadreifingu og samgöngur viðkomandi borgar og unnið með kerfið út frá því.

„Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað lagt til að slíkt faglegt mat fari fram en meirihlutinn hefur fellt slíkar tillögur,“ segir Kjartan. „Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða enda er staðsetning slíkrar aðalskiptistöðvar lykilatriði í því verkefni að bæta almenningssamgöngur og fjölga farþegum til framtíðar.“

Hér eftir fer bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði vegna samgöngumiðstöðvar 7. september 2017:

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefur tekið pólitíska ákvörðun um að aðalskiptistöð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði til framtíðar að Vatnsmýrarvegi 10 án þess að faglegt mat liggi fyrir um kosti og galla ólíkra valkosta í þessu sambandi.

Samgöngusérfræðingar hafa lýst yfir efasemdum um að rétt sé að slík aðalskiptistöð verði staðsett svo vestarlega í borginni og rétt sé að skoða aðra staði sem séu nær þungamiðju borgarinnar með tilliti til fólksfjölda og samgangna.

Sem fyrr vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að fram fari fagleg greining á því hver sé ákjósanlegasti staðurinn fyrir miðstöð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu áður en frekari ákvarðanir verða teknar um slíka uppbyggingu og telja rétt að í slíkri skoðun verði bornir saman ólíkir staðir fyrir slíka miðstöð, t.d. Kringlan, Mjóddin, Ártún og Vatnsmýrarvegur 10.