*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Erlent 11. ágúst 2017 18:31

Segir stjórnmálaáhættu fara vaxandi

Ray Dalio ráðleggur fjárfestum að hafa gull sem hluta af eignasafni sínu til að bregðast við stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Ástgeir Ólafsson
Ray Dalio, til hægri.

Ray Dalio stofnandi og stjórnarformaður Bridgewater Associates sem er stærsti vogunarsjóður heims, hefur töluverðar áhyggjur af stöðunni á fjármálamörkuðum vegna aukinnar stjórnmálaáhættu á Kóreuskaga og í Bandaríkjunum. Ráðleggur hann fjárfestum að hafa gull sem hluta af eignasafni sínu til þess að bregðast við vaxandi áhættu. 

„Áhætta vegna mögulegra atburða er að aukast og svo virðist sem hún sé ekki kominn inn í verð á fjármálamörkuðum," skrifar Dalio í færslu sem hann birti á LinkedIn síðu sinni í gær. „Aukinn áhætta virðist nú frekar vera stjórnmálalegs eðlis en efnahagslegs, sem þýðir að enn erfiðara er að verðleggja hana."

Máli sínu til stuðnings bendir Dalio á að nú séu tveir árásargjarnir, þjóðernis- og hernaðarsinnaðir leiðtogar í störukeppni. Á meðan fylgist heimurinn með hvort annar sé að „blöffa" eða hvort að styrjöld brjótist út. Í færslunni nefnir hann ekki leiðtoganna á nafn en nokkuð ljóst þykir að þarna eigi hann við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu.

Þá bendir hann einnig á að mögulegt sé að bandaríska þinginu mistakist að hækka skuldaþak ríkisins á komandi misserum. Segir hann að það myndi leiða til þess að stjórnkerfið myndi stöðvast tímabundið og auka líkurnar á því að minni trú verði á stjórnkerfi Bandaríkjanna. Fyrir tveimur dögum síðan var bent á það í grein á vef Bloomberg að Bandaríkin gætu mögulega orðið uppiskroppa með lausafé þann 29. september næstkomandi. 

Dalio segir að erfitt sé að taka fjárfestingaákvarðanir undir þessum kringumstæðum. „Við erum mjög hógværir þegar kemur að því að leggja mat á stjórnmálalega stöðu, þá sérstaklega hvað varðar málefni eins og stöðuna í Norður-Kóreu. Við gerum okkur grein fyrir því að við höfum ekki einstaka innsýn sem að við kjósum að veðja á," skrifar Dalio.

Að lokum segir Dalio: „Við reynum að verja okkar stöður þó að við verjum okkar aldrei fullkomlega. Við getum hins vegar sagt að ef hlutirnir fara virkilega illa þá virðist sem gull muni hækka í verði, frekar en aðrar öruggar eignir eins og dollar, jen eða ríkisskuldabréf. Ef þú ert ekki með 5-10% eigna þinna í gulli þá ráðleggjum við þér að endurskoða stöðu þína."