Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir það hljóti að vera einsdæmi að skýrsla sem rannsaki háttalag starfsmanna stofnunar sé fyrst yfirfarin af þeim sem málið varði sem ákveði hvað eigi að birta úr skýrslunni og hvað ekki.

„Ég á engin orð til um svona lagað,“ segir Þorsteinn Már meðal annars í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta er algerlega fráleit stjórnsýsla.“

Spurður hvort hann sé að segja að Seðlabankastjóri segi ekki rétt frá í pistli sem birtist á heimasíðu Samherja og Viðskiptablaðið hefur fjallað um játar hann það.

Sóttu aldrei um undanþágur

„Í fyrsta lagi gefur hann í skyn, því það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en þannig, að Samherji hafi oft sótt um undanþágur sem við gerðum aldrei á þessu tímabili,“ segir Þorsteinn.

„Í öðru lagi er hann að segja að þeir hafi ekkert með málin að gera, heldur sé bankinn eingöngu að uppfylla lagaskyldu sína, en hingað til hefur hann í raun ekki virt niðurstöður sérstaks saksóknara, þannig að hann hefur sem sagt með málið að gera.

Bankinn tekur ákvörðun um að rannsókn, ákæru og sektir

Það er hann sem er að taka ákvörðun um að rannsaka menn og að kæra menn, það er hann sem er að taka ákvörðun um að setja stjórnvaldssektir á menn, og svo er hann verulegur þátttakandi í því að semja lögin.“

Skýrslan sem samið var við Lagastofnun að gera á haustmánuðum 2015 hafi að sögn Þorsteins Más verið skilað í október.

Starfsmenn bankans hafi stöðvað birtingu skýrslu um sjálfa sig

„Við erum með fleiri en eitt bréf frá bankaráði um að starfsmenn séu að yfirfara hana og þeim beri að senda okkur skýrsluna,“ segir Þorsteinn Már.

„Svo er hann að segja að þetta sé bara skýrsla sem bankaráð lét vinna og gefur í skyn að það sé í höndum bankaráðs hvernig hún sé birt, en svo liggur fyrir skriflega að þeir sem hafa stöðvað birtingu skýrslunnar hingað til séu starfsmenn Seðlabankans.

Sem er mjög merkilegt þegar verið er að gera skýrslu um starfsmenn bankans, að það séu þeir sem fari yfir hana og þeir velji það hvað eigi að birta úr henni og hvað ekki. Þetta er algerlega fráleit stjórnsýsla. Ég á ekki orð til um svona lagað.“