Samgöngustofa segir Isavia þurfa formlegt leyfi hennar til að geta lokað neyðarbrautinni svokölluð á Reykjavíkurflugvelli, sem ekki hafi verið fengið. Neyðarbrautinni var lokað síðasta sumar vegna byggingarframkvæmda við enda hennar, en hún er eina flugbrautin á suðvesturhorni landsins sem liggur í suðvestur-norðaustur og nýtist hún því í slíkum vindáttum, fyrir sjúkraflug og annað.

Bentu Isavia á að þyrftu formlegt leyfi en ekkert gert

Í svari Samgöngustofu sem barst 11. maí síðastliðinn til öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna fyrirspurnar um hvort metin hefði verið áhætta vegna lokunar neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli kom fram að stofnunin hafi bent Isavia á að félagið þyrfti formlegt samþykkti frá henni til að loka brautinni.

Verkfræðistofan Efla gerði fyrir tveimur áhættumat vegna lokunarinnar fyrir Isavia, sem Samgöngustofa gerði athugasemdir við, en þeim athugasemdum hefur félagið ekki enn svarað að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Miðað við þessar fréttir þarf Alþingi að taka málið upp og skoða allan feril málsins,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins um málið. „Ég lít þetta alvarlegum augum og eitthvað í stjórnsýslu virðist hafa brugðist.“

Samgöngustofa hefur farið fram á að svonefnt Notam-skeyti um lokun flugbrautarinnar yrði afturkallað og nýtt gefið út þar sem brautin er bara í tímabundinni lokun, sem yrði þá í gildi þangað til samþykki Samgöngustofu liggi fyrir.