*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 20. ágúst 2012 13:37

Segir stjórnvöld hafa brotið lög

Víglundur Þorsteinsson segir BM Vallá hafa verið á lista Arion banka yfir skuldara sem skilanefndin ætlaði að græða á.

Hallgrímur Oddsson
Haraldur Jónasson

Víglundur Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformaður B.M.Vallár, sakar stjórnvöld um að hafa brotið lög með því að fara ekki eftir reglum neyðarlaganna. Líklegt sé að ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, einstakir starfsmenn nýju bankanna og skilanefnda hafi gerst brotlegir við ýmis ákvæði laga.

Þetta segir í yfirlýsingu sem Víglundur las í byrjun blaðamannafundar sem nú stendur yfir. Hann telur ljóst að skuldunautum Arion banka hafi verið mismunað í uppgjöri við bankann eftir efnahagshrunið.

Víglundur afhenti blaðamönnum möppu með gögnum um málið en hann vísar meðal annars í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna frá mars 2011. Hann segir að í henni sé lýst atburðarás sem stangist á við reglur neyðarlaganna. 

Í yfirlýsingunni segir að Fjármálaeftirlitið og Úrskurðanefnd um upplýsingamál hafi neitað Víglundi um afhendingu samninga um endurmat á lánasöfnum sem færð voru úr Kaupþingi yfir í Arion banka.

„Úrskurðurinn staðfesti hins vegar að í Arion banka var gerður listi yfir skuldara sem vinna skyldi á til ávinnings fyrir skilanefndina. Sú vinna fór fram að frumkvæði og undir verkstjórn ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þá staðfesti úrskurðurinn að á listanum var meðal annarra að finna nafn fyrirtækis míns B.M. Vallár Hf.,“ segir Víglundur.