Á mánudaginn síðastliðinn greindi Viðskiptablaðið frá því að velta Costco á Íslandi hafi numið samtals 8,65 milljörðum króna frá tímabilinu 23. maí, þegar verslunin opnaði í Kauptúninu, til 31. ágúst á síðasta ári.

Í ársreikningnum kemur jafnframt fram að á rekstrarárinu hafi verið 372 milljóna króna tap á rekstri Costco á Íslandi á reikningsárinu. Í skýrslu stjórnar fyrirtækisins kemur fram að það hafi verið viðbúið vegna þess mikla kostnaðar sem opnun verslunarinnar hafi haft í för með sér.

Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Verslanagreiningar, segir að ánægjulegt hafi verið að sjá að gögnin sem fyrirtækið hafi haft í höndunum hafi gefið góða mynd af stöðunni.

„Staða fyrirtækisins kemur ekki á óvart. Við hjá Verslanagreiningu vorum með um 5% skekkjumörk, þessi áætlun um 30 milljarða ársveltu var nákvæmlega það sem við spáðum,“ segir hann en bætir við að fyrstu þrír mánuðurnir sem uppgjörið tók til gefi ekki nákvæma mynd af heildarmyndinni.

„Ef við skoðum Costco í sögulegu samhengi þá er það þannig að vöruhúsin sem þau eru að opna hafa stækkað samfellt á hverju ári fyrstu tíu árin eftir að þau opna.“

Ekki hafið markaðsstarf

Kjartan segir það vera athyglisvert að verslunin hafi enn sem komið er ekki auglýst að neinu ráði.

„Þegar horft er aðeins til neysluvara þá gerum við ráð fyrir að Costco sé með 10% markaðshlutdeild,“ segir hann en bætir við að Costco sé að keppa á mörgum ólíkum mörkuðum til að mynda á dekkjamarkaði, raftækjamarkaði, skartgripamarkaði ásamt fleirum.

„Það sem er athyglisvert í þessu eru að þeir eru ekki ennþá byrjaðir að auglýsa. Þeir eru ekki byrjaðir að senda út mánaðarleg tilboð, þó svo þeir séu með aðgang að öllum meðlimum sínum í gegnum kortin sín,“ segir hann og bætir við að Costco leggi talsvert meiri áherslu á markaðssetningu erlendis.

Eldsneytið drifkarfturinn

Markaðshlutdeild Costco í bensíni á landinu er um 15% og bentu niðurstöður nýlegrar könnunar Zenter til þess að helsta ástæðan fyrir því að fólk stefni á endurnýjun aðildarkorta sinna sé vegna hagstæðs bensínverðs hjá fyrirtækinu.

„Eldsneytið er í rauninni drifkrafturinn inn í klúbbinn,“ segir Kjartan.

Hver verður fyrstur?

Að undanförnu hafa borist margar fréttir af íslensku verslunarumhverfi. Þar ber helst að nefna gjaldþrot verslananna Víðis og Kosts, kaup N1 á Festi og fleiru. Því er ljóst að Costco hefur sett sinn svip á íslenskt verslunarumhverfi. Aðspurður um áhrif Costco á íslenska verslun og hvort verslunarlíkan heildsölu- og smáverslana sé að breytast til frambúðar segist Kjartan telja að svo sé. Hann bendir jafnframt á að netverslun sé risa breyta sem vofir yfir íslenskri verslun og spáir því að tilkoma slíkra verslana muni eiga stóran þátt í að breyta verslunarumhverfi landsins. Netverslanir víðs vegar á norðurlöndunum eru um 10% af allri verslun meðan hún er aðeins um 3% hérlendis.

„Það verður áhugavert að sjá hvaða markaðsaðili verði fyrstur að innleiða þessa nýjung. Það er enginn kominn almennilega í gang af þessum stóru aðilum á Íslandi og Costco gæti hæglega byrjað með netverslun á Íslandi á morgun og slíkt myndi hafa veruleg áhrif á alla verslun í landinu,“ segir Kjartan.

Costco er risi á markaðnum

Kjartan segir áhugavert að skoða uppbyggingu Costco hér á landi, en hún er að mestu leyti fjármögnuð af erlendu lánsfé sem er á lægri vöxtum heldur en íslenskri verslun alla jafna býðst sem fjármagnar sig á íslenskum lánakjörum.

Það er engum blöðum um það að fletta að Costco hefur haft áhrif á heildsölu- og smásöluverslun hérlendis. Verslunin er til að mynda 400 sinnum stærri en Krónan og 280 sinnum stærri en Hagar. Því segir Kjartan að ljóst sé að Costco hafi mun meira bolmagn heldur en aðrir keppinautar á markaði. Að lokum segir Kjartan að þegar heildarsamhengið sé skoðað geti Costco ekki haft nein önnur áhrif en jákvæð fyrir íslenska neytendur.