Sænski hershöfðinginn Anders Brännström segir að Svíþjóð hafi engan annan kost heldur en að búa sig undir þriðju heimsstyrjöldina, en hann býst við henni innan fárra ára.

Hann segir að ástandið í alþjóðastjórnmálum leiði hann að þeirri niðurstöðu að það verði stríð innan fárra ára. Yfirmenn í hernum þurfi því að ýta á stjórnvöld að efla herafla þjóðarinnar.

Svíþjóð hefur í langan tíma verið hlutlaust land, þ. á m. í báðum heimsstyrjöldunum og hefur ekki átt í stríði í um 200 ár. Á undanförnum árum hefur hins vegar verið uppi umræða um hvort landið eigi að ganga í NATO. Rússland hefur svarað því með að sigla kafbátum reglulega inn í landhelgi Svíþjóðar og leyniþjónusta Svíþjóðar sagði nýlega að helsta ógn Svíþjóðar í njósnamálum væri Rússland. Nýlegar aðgerðir Rússlands innan Úkraínu og ógnandi tilburðir gagnvart Eystrasaltsríkjunum hafa einnig aukið spennuna á svæðinu.