Samanburður ASÍ á launum íslenskra lækna og lækna á hinum norðurlöndunum er ekki tækur, að sögn Guðmundar Karls Snæbjörnssonar læknis. Segir hann að verið sé að bera saman heildarlaun íslenskra lækna saman við dagvinnulaun þeirra skandínavísku. Sannleikurinn sé sá að heildarlaun íslenskra lækna séu sambærileg við dagvinnulaun þeirra sænsku.

Í samantekt ASÍ, sem gefin var út í vikunni , sagði að þegar heildartekjur lækna væru skoðaðar kæmi í ljós að heildartekjur íslenskra lækna eftir skatta og leiðrétt fyrir verðlagi væru hærri en tekjur starfsbræðra þeirra í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi árið 2013. Þegar tekjurnar væru hins vegar óleiðréttar fyrir verðlagi væru þær hærri á hinum Norðurlöndunum að Svíþjóð undanskilinni.

Guðmundur Karl segist hafa leitað til sænsku hagstofunnar og sænsku læknasamtakanna um upplýsingar um það hvaða tölur ASÍ gæti þarna verið að nota. „Alveg skýrt er af svörum sænsku hagstofunnar að í tölum þeirra um meðallaun lækna eru ekki upplýsingar um greiðslur vegna yfirvinnu, vakta og bakvakta. Þessum upplýsingum er einfaldlega ekki safnað. Læknasamtökin sænsku hafa ekki heldur þessar upplýsingar. Ég fékk það einnig staðfest að tölurnar hjá hagstofunni, þ.e. "mánaðarlaun" lækna eru dagvinnulaun og miðað við tölurnar í samantekt ASÍ þá hafa þær verið notaðar í samantektinni sem heildartekur sænskra lækna. Augljóst er að ASÍ hefur ekki áttað sig á hvaða tölur þeir eru að nota. Umfjöllun ASÍ um laun lækna er því bara tóm þvæla og vitleysa og allur samanburður því út í bláinn. Þess utan hefði þeim verið í lófa lagið að bera saman meðal dagvinnulaun íslenskra lækna við kollegana á Norðurlöndum ef þeir hefðu haft fyrir því að leita eftir upplýsingum um það hjá Fjármálaráðuneytinu, sem þeir gerðu ekki eins og gert var fyrir aðrar stéttir í samantekt þeirra. Mætti spyrja sig að því hver raunverulegur ásetningur ASÍ hafi verið með svona vinnubrögðum.“

Þetta kemur fram í samskiptum Guðmundar Karls við sænsku hagstofuna og sænsku læknasamtökin sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

„Það að bera saman heildarlaun íslenskra lækna við dagvinnulaun þeirra sænsku er ekki vandað. Hins vegar kann ég ASÍ þakkir fyrir að hafa, ómeðvitað þó, vakið athygli á því að heildartekjur íslenskra lækna jafnast aðeins á við dagvinnulaun þeirra sænsku. Þetta undirstrikar það sem við höfum sagt að grunnlaun íslenskra lækna eru of lág og að þeir vinni allt of mikla yfirvinnu. Með umfjöllun sinni virðist ASÍ hafa verið að stilla læknum upp sem lygurum í nýafstaðinni kjarabaráttu, sem er eins fjarri sannleikanum og hægt er,“ segir Guðmundur Karl að lokum.