Ólafur Magnús Magnússon í mjólkurbúinu Kú harmar hversu skammt atvinnuveganefnd Alþingis gengur í breytingum á búvörulögum í átt til aukins jafnræðis á mjólkurvörumarkaði.

Segir hann MS undanþegna ákvæðum samkeppnislaga, meðan keppinautarnir starfi undir ákvæðum þeirra.

Segir ummæli formanns Bændasamtaka Íslands hrein ósannindi

Einnig gagnrýnir hann formann Bændasamtaka Íslands, sem hann segir hafa ranglega haldið því fram í fréttum að MS beri skylda til að safna mjólk á öllu landinu og greiða fyrir hana sama verð, sem röksemd fyrir því að viðhalda undanþágum MS.

„Þetta eru hrein ósannindi því ákvæði þess efnis hafa verið feld úr búvörulögum fyrir nokkru. Engin slík skylda hvílir því á MS, á þetta reyndi í svokölluðu Brúarreykjamáli,“ segir Ólafur Magnús í fréttatilkynningu frá Kú-mjólkurbúi.

Segir keppinauta MS þurfa að starfa undir samkeppnislögum

„Ennþá er gert ráð fyrir því að Mjólkursamsalan verði undanþegin ákvæðum samkeppnislaga og er það með öllu óskiljanlegt að löggjafi skuli viðhalda því,“ segir Ólafur og vísar í nýlegar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins í málefnum MS.

Segir í fréttatilkynningunni að þannig verði Mjólkursamsalan, með markaðsráðandi stöðu og 98% markaðshlutdeild á mjólkurmarkaði, undanþegin ákvæðum samkeppnislaga á meðan keppinautar hennar starfi undir ákvæðum samkeppnislaganna.

Opinbera verðlagningarkerfið gefi MS kverkatak

„Er það öfugsnúinn staða fyrir lítil fyrirtæki að hasla sér völl á þessum markaði undir þessum kringumstæðum,“ segir Ólafur Magnús

Skorar hann á Alþingi að skjóta ekki á frest því sem hann kallar nauðsynlega og brýna umræðu um aðkallandi úrbætur á rekstrarumhverfi minni úrvinnsluaðila.

Segir hann það með öllu óvíst að þeir verði til staðar eftir þrjú ár ef Mjólkursamsalan haldi því sem hann kallar kverkatak fyrirtækisins á markaðnum í skjóli opinberrar verðlagningar og undanþága frá samkeppnislögum.

Álit nefndarinnar kattarþvottur til að slá ryki í augu almennings

Má geta þess að atvinnuveganefnd samþykkti nýlega að ríkið geti endurskoðað búvörusamningana eftir þrjú ár.

Kallar hann meirihlutaálit atvinnuvegar Alþingis kattarþvott einungis ætlaðan til að slá ryki í augu almennings því í raun sé verið að slá skjaldborg „um einokun og fákeppni á mjólkurvörumarkaði til næstu 10 ára.

Síðast en ekki síst er verið að koma sér hjá efnislegri umræðu um þau ólög og álögur sem fyrirliggjandi búvörusamningar leiða af sér fyrir almenning. Það því ljóst að varðmenn einokunar og fákeppni kunna ekki að skammast sín.“