Oliver Luckett segir umræðuna um hvalveiðar á Íslandi einkennast af sterkum tilfinningum og sundrung. „Ég á erfitt með að átta mig á því hvernig stjórnmálaumræðan gengur fyrir sig hérna, ég veit ekki hversu miklum þrýstingi er verið að beita, vegna þess að viðbrögðin sem ég fæ þegar ég reyni að ræða þetta eru eins og að tala um Trump í Bandaríkjunum. Fólk hefur rosalega sterkar og fastmótaðar skoðanir á þessu og ég vil helst komast hjá því að blanda mér í það.“

Hann segir þó ákveðna kaldhæðni fólgna í því að helstu varðhundar hvalveiða séu jafnframt þeir sem hafi hvað mestu að tapa. „Mér skilst að þetta séu valdamiklir menn með sterk tengsl við sjávarútveginn og þessvegna finnst mér hálf öfugsnúið að þeir séu að valda honum skaða. Mér finnst það ansi kaldhæðnislegt.“

Aðflæðið lyftir öllum bátum
Luckett segir að hvalveiðar, og fréttir og umræða um þær , snerti hagsmuni allra landsmanna. „Aðflæðið lyftir öllum bátum; allir Íslendingar græða á því þegar ný tækifæri opnast fyrir eins mikilvægan iðnað og sjávarútvegur er fyrir Íslendingum. Þau tækifæri hverfa hins vegar ef ímynd Íslands er svert með svona fréttum. Hvað sem fólki kann að finnast um þau mannúðarsjónarmið sem umræðan snýst um, er hættan sú að hún eyðileggi möguleikann á því að tvöfalda umfang sjávarútvegsins. Ef við gerum þetta rétt getum við gert 500 milljarða króna atvinnuveg að yfir þúsund milljarða króna atvinnuvegi. Samfélagsmiðlar geta verið ansi hverfulir. Þeir geta tekið jafnskjótt og þeir gefa.“

Hann lítur þó björtum augum á framtíðina og segir sjávarútveginn og Íslendinga hafa til mikils að vinna. „Ég held að það séu gríðarlegir möguleikar fyrir sjávarútveginn fólgnir í því að auka markaðssetningu og gera út á ímynd lands og þjóðar, góða þjónustu, sjálfbærni, gagnsæi og sterk tengsl við viðskiptavini.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .