Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var af fjármálaráðherra í gær geta langtímaatvinnulausir aðeins þegið atvinnuleysisbætur í tvö og hálft ár í stað þriggja.

„Þetta eru mjög kaldar kveðjur til þeirra sem eru langtímaatvinnulausir,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í samtali við Fréttablaðið í morgun og bætir við að verið sé að velta vandanum yfir á sveitarfélögin sem veita atvinnulausum fjárhagsaðstoð eftir að rétti til atvinnuleysisbóta lýkur.

Dagur B. Eggertsson er heldur ekki sáttur við málið. „Það verður að ræða þetta miklu betur áður en hægt verður að sætta sig við að þetta verði niðurstaðan því þetta er mjög óskynsamlegt út frá langtímahagsmunum bæði ríkis og sveitarfélaga.“