*

sunnudagur, 24. júní 2018
Innlent 24. október 2016 13:44

Segir verðkannanir ASÍ ekki faglegar

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, gagnrýnir vinnubrögð ASÍ við verðkannanir sem hann segir ekki faglega unnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir það deginum ljósara að styrking krónunnar hafi afar hagstæð áhrif á verðlag í landinu, en hann hefur áhyggjur af því að í þjóðfélagsumræðunni sé oft ekki horft á heildarmyndina.

„Það eru fáar þjóðir sem eru eins háðar innflutningi á vörum og við, og þar af leiðandi hefur staða gengisins afgerandi áhrif á allt verðlag, Þegar horft er á gengi pundsins í byrjun júlí, fyrir þremur og hálfum mánuði, þá fékkst það á 162 krónur, nú er það á 139 krónur.

Töluvert stór hluti af innflutningi til landsins kemur frá Bretlandi og er í pundum, þannig að það þarf ekki mikinn speking til að sjá hvaða áhrif þetta hefur,“ segir Andrés og vísar í að greiningardeildir bankanna telji þessa þróun halda áfram næstu mánuðina.

„Það sem allt of oft gleymist í umræðunni, þegar ASÍ er að gera verðkannanir sínar, er að tekið sé tillit til heildarmyndarinnar, það hefur á þessu ári skort mjög á það.

Í upphafi þessa árs voru gerðir afar dýrir kjarasamningar, sem leiddu til meiri launahækkana á einu bretti en dæmi eru um á Íslandi um langt árabil.

Fyrir þessar greinar þar sem launakostnaður er mjög afgerandi þáttur í öllum rekstrarkostnaði, þá vegur þetta upp á móti lækkunum vegna styrkingar krónunnar og tollaniðurfellinga.“

Kaupmáttaraukningin 6,1% það sem af er ári

Andrés segir að þeir hjá samtökunum þurfi alltaf að leiðrétta umræðuna og koma á framfæri sjónarmiðum þeirra greina, í verslun og þjónustu, sem þeir séu að gæta hagsmuna fyrir.

„Það sem flækir myndina enn meir, er að tollaniðurfellingin náði eingöngu til um 40% af fötum og skóm, en kringum 60% af þessum vörum voru þegar flutt inn án tolla.

Það er að segja allar vörur sem fluttar voru inn frá Evrópusambandinu, og eða ríkjum sem við erum með fríverslunarsamninga við, eins og til dæmis Kína, þeir voru þegar án tolla. Svo ég gagnrýni ASÍ og hvernig staðið er að verðkönnunum sem þeir standa fyrir þá teljum við þær ekki faglega gerðar.

Þeir eru ekkert að minnast á þessa staðreynd, en sama á við um umræðuna um niðurfellingu vörugjaldanna um áramótin 2014 til 2015, sem náði til byggingarvara meðal annars.

Þegar ASÍ gerir sínar verðkannanir, er verið að gefa það til kynna í umræðunni, að niðurfelling á vörugjöldum hafi náð til allra byggingarvara. Staðreyndin er sú að þetta náði eingöngu til á milli 10-15% af þeim vörum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.