Í erindi sem Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands flutti í gær fyrir þingflokk Vinstri grænna um ástand og horfur í efnahagsmálum landsins fjallaði hann meðal annars um af hverju vextir eru hærri hér en í öðrum iðnríkjum.

Benti Þórarinn þar á að útflutningsverð Íslands hafi á árunum 2014 til 2016 hækkað um 17% í hlutfalli við útflutningsverð helstu viðskiptalanda. Segir hann það óvenjulegt í ljósi hægs hagvaxtar í viðskiptalöndunum, en viðskiptakjör landsins hafa batnað um 13%, sem er mun meiri bati en meðal annarra OECD ríkja. Þá sérstaklega meðal hrávöruútflytjenda.

Ferðaþjónustan fjórfaldast síðan árið 2010

Eins og margoft hefur komið fram skýrist þetta mikið til af miklum vexti ferðaþjónustu, en hún óx um 44% í fyrra og hefur hún ríflega fjórfaldast síðan árið 2010. Skýrir hún um tvo þriðju af 10 prósenta meðalvexti útflutnings síðustu tveggja ára.

Vergar landstekjur, sem er verg landsframleiðsla, að viðbættum viðskiptakjaraáhrifum hafa vaxið yfir 8% síðutu tvö árin, meðan hagvöxturinn var 7,2% í fyrra og 4,1% árið 2015.

Samdráttur kreppunnar að fullu endurheimtar

Með þessum mikla hagvexti, sem er mun meiri en í öðrum þróuðum hagkerfum hefur samdráttur í kjölfar kreppunnar verið að fullu endurheimtur, en ólíkt fyrri uppsveiflu er nú afgangur af viðskiptum við útlönd, vaxandi sparnaður í landinu og jákvæð hrein skuldastaða.

Þessi vaxandi spenna er farin að reyna á þanþol þjóðarbúskapsins, langtímaatvinnuleysi er horfið og vaxandi skortur er á starfsfólki. Atvinnuþátttaka er nú orðin meiri en var mest fyrir kreppu, en mikilli eftirspurn hefur verið mætt með innflutningi vinnuafls sem léttir að hluta til spennunni á þjóðarbúinu.

Launakostnaður hækkaði um 16%

Gengisþróunin hefur leitt til þess að nýi útflutningsgeirinn hefur rutt burt annarri útflutningsstarfsemi, en styrking krónunnar er samt sem áður í samræmi við það sem vænta megi í ljósi þróunar efnahagsumsvifa hér á landi og erlendis.

Þessi gengishækkun hefur vegið á móti innlendum verðbólguþrýstingi, en þar hefur einnig áhrif lítil alþjóðleg verðbólga.  Lækkaði innflutningsverð um fimmtung á árunum 2014 til 2016 á sama tíma og launakostnaður á framleidda einingu hækkaði um 16%.

Vextir væru hærri ef ekki væri fyrir styrkinguna

Ef ekki væri fyrir fyrir þessa gengisaðlögun væri meira ójafnvægi og verðbólguþrýstingur og þyrftu vextir að öðru óbreyttu að vera hærri.

Verðbólguvæntingarnar hafa smám saman lækkað í átt að verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, en vextir bankans sem voru farnir að lækka voru hækkaðir skarpt í kjölfar kjarasamninga árið 2015 til að ná aftur tökum á væntingunum.

Slaki í opinberum fjármálum vegur gegn aðgerðum bankans

Í kjölfar þess að það tókst, tóku vextirnir að lækka á ný, en á sama tíma og spenna í þjóðarbúinu hefur kallað á aðhaldsama peningastefnu hefur slaknað á aðhaldi opinberra fjármála, sem hefur aukið á eftirspurn og þenslu.

Það þrýstir enn frekar á gengi krónunnar og kallar á hærri vexti en ella, en slakinn var 2% af vergri landsframleiðslu árin 2015 til 2016 og bæta ný fjárlög um hálfs prósenta viðbótarslökun á þessu ári.

Ástæðan mismunandi aðstæður

Sem svar við spurningunni af hverju vextir séu hærri hér en í öðrum iðnríkjum svarar Þórarinn því, að peningastefnan hafi takmörkuð áhrif á kerfisbreytingar á samsetningu útflutnings og tilheyrandi hækkun jafnvægisgengis.

Verkefni hennar sé að tryggja verðstöðugleika, sem hafi tekist þrátt fyrir spennuna, en allt aðrar aðstæður séu í nágrannaríkjunum þar sem enn sé mikill slaki og verðbólguvæntingar hafi leitað undir markmið.