Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem fer fyrir nýju framboði fyrir komandi alþingiskosningar segist hafa gert betur hreint fyrir sínum dyrum heldur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður. Nýjasta skoðanakönnunin sýnir flokkinn sem þá var nafnlaus þegar vera kominn með 7,3% fylgi .

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur Sigmundur nú staðfest að nýja framboðið muni bera nafnið Miðflokkurinn, og að Samvinnuflokkur Björns Inga muni ganga inn í flokkinn en fyrr á árinu stofnaði Sigmundur Framfarafélagið. Sigmundur segir ýmsa þegar hafa lýst yfir áhuga á að koma að nýju framboði hans, en hann segir jafnframt að ekki verði um frekari sameiningar við önnur framboð.

Sigmundur segist hafa fyrir löngu gert hreint fyrir sínum dyrum og sannað það að hann sé tilbúinn að fórna eigin hagsmunum fyrir almannahagsmuni að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

„[Þ]etta Wintrismál hefur sannað það ég hef alltaf haft heildarhagsmuni almennings að leiðarljósi og jafnvel verið tilbúinn að fórna hagsmunum eigin fjölskyldu og annarra til þess að tryggja almannahagsmuni á Íslandi í þessum stóru málum,“ segir Sigmundur Davíð sem segist hafa gert ráð fyrir að fara áfram fram í Norðausturkjördæmi, þar sem hann settist að þegar varð formaður enda sterkasta vígi Framsóknarflokksins.

Hvattur til að bjóða sig fram fyrir sunnan

„Hins vegar eru margir að hvetja mig til að koma hingað suður á höfuðborgarsvæðið.“ Sigmundur er sannfærður um að aðrir flokkar verði tilbúnir að vinna með honum eftir kosningar.

„[É]g held það sé engin ástæða til annars en ætla að stór hluti fólks muni vilja sjá mig vinna áfram að þessum helstu málum,“ segir Sigmundur sem segist vera vanur því að vera umdeildur og forystumenn flokka setji fyrirvara á sig fyrir kosningar. „En menn verða yfirleitt mjög praktískir strax eftir kosningar.“