Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, segist ekki getað kosið flokkinn í komandi Alþingiskosningum.

Sem kunnugt er ákvað Erna að afþakka sæti á lista í Pírata eftir að hafa lent neðarlega á lista í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Í viðtali í Fréttatímanum sagði hún miðju- og hægrisinnaða flokksmenn hafa „beðið afhroð“ í prófkjörinu og að þar hafi Píratar afhjúpað sig sem vinstri flokk.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Erna Ýr að Píratar séu að breytast í eins máls stjórnmálaflokk sem hugsi einvörðungu um nýja stjórnarskrá.

„Ég vil ekki skemma fyrir flokknum mínum því að ég aðhyllist öll grunngildi Pírataflokksins sem er upplýsingafrelsi, borgararéttindi, netfrelsi, jöfn tækifæri, frjáls samvinna, gagnsæi og að stjórnvöld opni gögn svo fólk geti unnið með þau. En nú er búið að breyta þessum flokki í eins máls flokk sem hverfist um stjórnarskrármál stjórnlagaráðs og ég held ég geti ekki kosið hann að óbreyttu,“ segir Erna Ýr við Morgunblaðið.

Hún kvartar einnig undan þeim viðbrögðum sem hún fékk meðal Pírata þegar hún reyndi að koma sjónarmiðum sínum á framfæri: „Mér finnst leiðinlegt að þegar ég brydda á þessu að þá skuli ég bara vera sett í sýrubað af gagnrýni, aðallega á mína persónu en minna á málefnið. Það er ekki hvetjandi að taka þátt í rökræðu um þessi mál þegar maður fær svona Hallmundarhraun yfir sig í hvert skipti,“ sagði Erna.