Bjarni Benediktsson forsætisráðherra birti rétt í þessu færslu á facebooksíðu sinni þar sem hann segir það alvarlegar ásakanir sem fram komu í fréttum morgunsins að hann hafi misnotað aðstöðu sína og stundað innherjasvik.

„Hvort tveggja er rangt,“ segir Bjarni sem segist hafa verið læstur með sína peninga í bankanum í mörg ár, en eftir söluna keypti hann í tveimur öðrum sjóðum innan bankans.

Í færslunni telur hann upp nokkur atriði málsins:

  1. Alveg frá því tilkynnt var um yfirtöku ríkisins á Glitni og falls Lehman bræðra höfðu markaðir á Íslandi verið í frjálsu falli
  2. Hann segir það rangt að hann hafi beðið með söluna fram til 6. október heldur hafi vinnslan tekið nokkra daga.
  3. Hann var læstur inni í bankanum í mörg ár með sína peninga eins og aðrir
  4. Það á sér enga stoð að hann hafi miðlað upplýsingum um störf FME til starfsmanna bankans
  5. Öllum steinum var velt við af Rannsóknarnefnd Alþingis.
  6. Hann hefur sagt sig úr öllum stjórnarstörfum

Hér fer yfirlýsingin af facebook síðu forsætisráðherrans í heild sinni:

„Í tilefni af fréttum um sölu á hlutabréfum í Glitni á árinu 2008 og í Sjóði 9 dagana fyrir fall bankanna vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Öll mín viðskipti við Glitni banka voru eðlileg. Þau hafa staðist ítrekaða skoðun. Það er aðalatriði málsins.

Eins og áður hefur komið fram seldi ég hlutabréf mín í Glitni árið 2008. Söluandvirðið var geymt áfram í bankanum, fyrst og fremst í Sjóði 9. Ég seldi smám saman þá eign yfir árið og færði að hluta í aðra sjóði og á innlánsreikninga hjá bankanum.

Látið er að því liggja í fréttum í dag að ég hafi búið yfir trúnaðarupplýsingum um stöðu fjármálakerfisins, eða Glitnis, annars vegar þegar ég seldi hlutabréfin, og hins vegar þegar ég seldi eftirstöðvar eignar minnar í Sjóði 9 dagana fyrir fall bankans. Þetta eru alvarlegar ásakanir. Hér er verið dylgja um að ég hafi misnotað stöðu mína og stundað innherjasvik. Hvort tveggja er rangt.

Allt árið 2008 geisaði alþjóðleg fjármálakrísa sem Ísland fór ekki varhluta af. Í upphafi árs mistókust tilraunir íslensku bankanna við að endurfjármagna skuldbindingar og hlutabréfaverð lækkaði ört. Þessi staða varð mér tilefni til greinarskrifa í febrúarmánuði 2008 með Illuga Gunnarssyni þar sem við vöktum sérstaka athygli á alvarleika málsins og komum með tillögur til úrbóta. Við undirbúning greinarskrifanna áttum við samtöl við fjölmarga sérfræðinga innan og utan fjármálakerfisins, sem einkum sneru að því til hvaða ráðstafana mögulegt væri að grípa til að koma í veg fyrir tjón. Tillögur okkar mótuðust af þessum samskiptum.

Nokkur atriði skipta hér mestu:

Í fyrsta lagi er rétt að vekja athygli á því að 29. september 2008 var tilkynnt að ríkið hygðist yfirtaka 75% í Glitni en tveimur vikum áður hafði Lehman Brothers bankinn fallið. Engum gat dulist að upp var komin grafalvarleg staða í íslenska fjármálakerfinu. Dagana frá yfirlýsingu um yfirtökuna og fram að setningu neyðarlaganna, 6. október, voru markaðir á Íslandi í frjálsu falli.

Í öðru lagi er það rangt að ég hafi beðið um sölu á hlut mínum sama dag og neyðarlögin voru sett, 6. október 2008. Hið rétta er að ég óskaði eftir því 2. október, eins og framkomin gögn sýna, en uppgjör tók 2-3 viðskiptadaga. Ég seldi í Sjóði 9 en keypti m.a. í sjóðum 5 og 7, sem voru áhættuminni og geymdi peningana áfram í bankanum.

Í þriðja lagi vil ég að fram komi að ég, líkt og margir aðrir viðskiptavinir bankans, var læstur í mörg ár með peninga í sjóði bankans.

Í fjórða lagi er látið að því liggja að ég hafi miðlað upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins (FME) til starfsmanns bankans. Þetta á sér enga stoð í raunveruleikanum. Engum slíkum upplýsingum var miðlað enda bjó ég ekki yfir slíkum upplýsingum. Hins vegar mátti öllum vera ljóst að FME væri að vinna í málunum. Þetta er eftir að tilkynnt hafði verið um yfirtöku ríkisins á bankanum. Það hefði verið ábyrgðarlaust ef menn hefðu ekki verið að róa öllum árum að því að bjarga málum í FME á þessum tíma og ekkert fréttnæmt við að ég hafi mögulega látið slík orð falla.

Í fimmta lagi liggur fyrir að Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) fékk víðtækustu rannsóknarheimildir sem mögulegt var. Öllum steinum var velt við. Sérstaklega var hugað að öllu því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Um þetta allt er fjallað í skýrslu RNA.
Þá tók slitastjórn bankans öll viðskipti í aðdraganda hrunsins til skoðunar. Allt sem gerðist í aðdraganda falls bankanna hefur því í tvígang verið rannsakað. Engar athugasemdir hafa nokkru sinni verið gerðar við viðskipti mín. Ég hef aldrei verið sakaður, af öðrum en ákveðnum blaðamönnum og einstaka pólitískum andstæðingi, um að hafa gert eitthvað misjafnt.

Í sjötta lagi vil ég taka fram að ég tók ákvörðun fyrir mörgum árum um að segja mig frá öllum stjórnarstörfum fyrir fyrirtæki og losaði mig við öll hlutabréf sem ég átti í þeim tilgangi að helga alla mína starfskrafta forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum. Ég geri engan ágreining við þá sem segja óviðeigandi að forystufólk í stjórnmálum stundi á sama tíma viðskipti. Ég hef sýnt það í verki hvernig ég tel best að gera skil þarna á milli.

Hrun fjármálakerfisins, sem olli hrikalegu áfalli fyrir íslenskan efnahag, hefur verið skoðað ofan í kjölinn. Okkur Íslendingum hefur tekist vel að byggja landið okkar upp að nýju. Við þurfum að beina kröftum okkar að uppbyggingu og nýta þau fjölmörgu tækifæri til bættra lífskjara.

Kosningarnar framundan eru tækifæri til þess.“