Páll Heimisson, fyrrverandi starfsmaður flokkahópa íhaldsmanna í Norðurlandaráði, segist saklaus af ákærum um að hafa misnotað aðstöðu sína og tekið út tæpar 20 milljónir króna í rúmlega 320 skipti af kreditkorti Sjálfstæðisflokksins í 16 löndum á árunum 2009 til 2011 til kaupa á vörum og þjónustu. Málið átti að þingfesta í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok janúar. Páll mætti hins vegar ekki. Það var svo tekið fyrir í dóminum í morgun.

Fréttastofa RÚV bendir á að kortið var á kennitölu Sjálfstæðisflokksins þar sem íhaldshópurinn sem Páll vann fyrir er ekki lögaðili og því ekki hægt að skrá kortið á hann.

Til að útskýra málið nánar þá var Páli sem starfsmanni fyrrnefnds flokkahóps ætlað að nota kreditkortið til að standa straum af kostnaði vegna starfa sinna fyrir hópinn. Það voru starfsmenn á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins sem komu upp um málið og kærðu til lögreglu. Páll var ekki starfsmaður Sjálfstæðisflokksins þótt hann hefði þar aðstöðu.

Samkvæmt ákæruskjali embættis sérstaks saksóknara eru úttektirnar stórar í reiðufé sem teknar voru út úr hraðbanka, kaup á flugmiðum og hótelgistingu. Þá er einnig að finna minni upphæðir fyrir veitingum, fatnaði og fleira. Óheimilar úttektir á reiðufé nema samkvæmt ákæruskjalinu samtals um 12,4 milljónum króna, óheimil kaup á vörum og þjónustu nema um 6,9 milljónum króna en við þetta bætist síðan kostnaður vegna hvoru tveggja.