Miðstjórn ASÍ segist harma þá vegferð sem Icelandair er á og segja að þær aðfarir séu farnar „að minna óþægilega á þá viðskiptahætti sem Primera Air stundaði í óþökk norrænnar verkalýðshreyfingar." Þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins .

Vísar stjórnin í þá ákvörðun flugfélagsins að setja flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi afarkosti. Með því að ætlast til að þau annað hvort taki fullt starf eða missi vinnuna. Stjórnin harmar uppsagnir hjá Icelandair sem hefur sagt upp á þriðja tug starfsmanna og ákveðið að útvista verkefnum til Eystarsaltsríkjanna þar sem starfskjör eru lakari en hér á landi .

„Icelandair er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins og hefur notið ákveðinnar virðingar vegna starfsmannastefnu sinnar. Sá harkalegi stjórnunarstíl sem fyrirtækið sýnir nú á ekkert skylt við hana," segir í yfirlýsingunni.