*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 16. janúar 2018 14:31

Segja ekki lengur þörf á að sjóða vatnið

Matvælastofnun segir ekki þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum þrátt fyrir að neysluvatn standist ekki kröfur í borginni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Mengun í neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu er einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta sem leiddi til að gæði neysluvatns hefur nú í nokkra daga ekki staðist ýtrustu gæðakröfur segir í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun.

Niðurstöður mælinga á vatninu gefa ekki tilefni til að ætla að hætta sé á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu á vatni á svæðinu. Þetta er niðurstaða fundar stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir í morgun. 

Segja ekki þörf á að sjóða vatnið

Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er sagt óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu, sem er þvert á það sem kom fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur og Viðskiptablaðið sagði frá

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt að borgin hafi lært af því að ekki var greint frá skolpmengun í Faxaflóa í sumar, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Eyþór Arnalds frambjóðandi til leiðtogakjörs Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta í borginni velt því upp hvort skortur á viðhaldi sé um að kenna. Segir hann borgarbúa eiga rétt á að vita hver ástæðan fyrir menguninni sé.

Engin mengun í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði

Fundinn sátu fulltrúar sóttvarnalæknis, Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Kjósarsvæðis, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sýkingavarna- og sýklafræðideildar Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, MATÍS, Veitna OHF og Geislavarna ríkisins.

Á fundinum var rætt um þá mengun sem mælst hefur í neysluvatni í Reykjavík að undanskildum Grafarvogi, Norðingaholti, Úlfarsárdal og Kjalarnesi. Mengun mældist einnig á Seltjarnarnesi en engin mengun hefur mælst í neysluvatni í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.

Framleiðslu drykkjarvara hætt tímabundið

Veitur ohf. og heilbrigðiseftirlitssvæðin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til.

Mengunin hafði töluverð áhrif á framleiðslu drykkjavöruframleiðendanna Coca Cola á Íslandi og Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sem hafa framleiðslu sína í Reykjavík, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hættu bæði félögin framleiðslu í kjölfar fréttanna, en hafa síðan bæði boðað að framleiðsla hefjist að nýju.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim