*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 25. október 2016 12:56

Segja fjárfesta óttast kosningaúrslit

Bloomberg fréttastofan fjallar um áhyggjur fjárfesta sem muni draga sig úr fjárfestingum ef kosninganiðurstaðan yrði „röng“.

Ritstjórn
Lars Christensen á fundi VÍB á Íslandi
Haraldur Guðjónsson

Aðdráttarafl Íslands sem fjárfestingarlands gæti minnkað í kjölfar kosninganna á laugardag. Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg fréttastofunnar sem segir að afleiðingar kosninganna gætu orðið aukin róttækni og óstöðugleiki í stjórnmálum landsins.

Gæti það haft áhrif á fjárfesta sem hafa verið að nýta sér háa vexti í landinu í kjölfar þess að byrjað var að taka skref til afnáms gjaldeyrishaftanna.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkar

Áhyggjurnar hafi leitt til þess að ávöxtunarkrafan á skuldabréf ríkisins gefnum út í evrum sem eru með gjalddaga 2020 hafi hækkað um 5 punkta á síðustu vikum.

Hún sé nú 102 punktum hærri en viðmiðunargildi þýskra skuldabréfa.

Selja ef röng kosninganiðurstaða

Vitna þeir í sjóðsstjóra hjá Frankfurt-Trust sem segir að þrátt fyrir að hann hafi nýlega keypt íslensk skuldabréf vegna vaxta sem eru hærri en 5% þá heldur hann að sér höndum nú.

„Við höfum trú á Íslandi og viðsnúningnum,“ segir sjóðsstjórinn Klaus Spoeri. „En ef kosningarnar á laugardag skila rangri niðurstöðu munum við selja okkur út.“

Ríkisstjórnin njóti ekki meiri hagvaxtar en þekkist í Evrópu

Vitnar fréttin síðan í að þrátt fyrir markverðan viðsnúning í efnahagslífi landsins sýni nýjustu kannanir að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafi litlar vonir um að standa af sér kosningarnar.

Listar fréttin upp árangur ríkisstjórnarinnar sem hafi snúið 14,3 milljarða króna fjárlagahalla í það sem vænt er að verði 408 milljarða króna jákvæð staða á þessu ári og hagkerfið hafi náð hagvaxtarstigi sem sé óþekkt annars staðar í Evrópu.

Óreynt bandalag stjórnandstöðuflokka vill hærri skatta

Segja þeir að óreynt bandalag stjórnarandstöðuflokka stefni á að ná valdataumunum. Það sé leitt af Pírataflokknum, sem sé hreyfing stuðningsmanna beins lýðræðis sem njóti þeirrar andstöðubylgju gegn hefðbundnum valdahópum sem er um allan heim. 

Nefna þeir fundi stjórnarandstöðuflokkanna Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og væntanleg áherslumál þeirra um að koma á stjórnarskrárbreytingum og hærri sköttum.

Sundurlaust bandalag og brothætt stjórn

Síðan vísar fréttin í Lars Christensen, hagfræðing hjá ráðgjafafyrirtækinu Market and Money Advisory sem spáði fyrir um hrunið 2008 sem segir að jafnsundurlaust bandalag geti leitt til óskýrrar og brotthættrar stjórnar.

„Ef við fáum fjögurra flokka ríkisstjórn, verða þetta fjórir frekar mismunandi flokkar og fullt af óreyndum stefnumörkunaraðilum,“ er haft eftir Lars, þar sem hann lýsir Pírötum ekki sem hefðbundnum vinstriflokki eins og hinir þrír.

„Þeir virðast ná yfir allt pólitíska litrófið, að minnsta kosti þegar kemur að hagfræði.“

Fjallar greinin jafnframt um ástæður kosninganna og svo um sterka stöðu krónunnar sem hafi ekki verið sterkari gagnvart evru síðan fyrir hrunið 2008.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim