Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir gagnrýnivert að fjárhæðartakmarkið fyrir fjárfestingarleið Seðlabankans hafi verið 10 milljónir. „Það er grundvallaratriði að mínu mati að aðgengi fólks að gæðum sem stjórnvöld hafa milligöngu um að veita þarf að vera jafnt,“ segir Lilja í Fréttablaðinu í dag.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær, nýttu margir fjárfestar sér leiðina til að kaupa gjaldeyri af aflandskrónueigendum á afslætti. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að reglurnar hefðu átt að vera strangari eftir á að hyggja, en það sé erfitt að setja sig í spor þeirra sem settu reglurnar á sínum tíma.

„Í kjölfar hrunsins voru menn í miklum vandræðum vegna þess að hér voru erlendir aðilar sem áttu svo mikið að krónum,“ segir Benedikt. „Snjóhengjan var þá í þeirri stærð að hún gæti sett allt efnahagslífið á hliðina ef krónurnar hefðu allar farið út í einu.“

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja að nýju fram þingsályktunartillögu um að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka fjárfestingarleiðina, en fyrri tillaga hans var ekki útrædd á síðasta þingi.