Erlend fjármálasíða segir eina af ástæðum mikillar hækkunar húsnæðisverðs á Íslandi koma ferðamanna til að sjá hvar vinsælar þáttaraðir eru teknar upp. Fjármálafréttasíðan Moneyinternational slær því upp í fyrirsögn, að sjónvarpsþættirnir vinsælu Game of Thrones, sem þýddir hafa verið sem Krúnuleikarnir á hinu ástkæra ylhýra, séu að auka við húsnæðisverð hér á landi.

Segja þeir áhrif sjónvarpsþáttanna vera að bræða hjarta þeirra sem heimsækja landið, en mikið af þeim atriðum sem eiga að gerast norðan ísveggsins mikla hafa verið tekin hér á landi, en einnig önnur atriði. Segja þeir ferðaþjónustufélög vera með reglulegar ferðir á þær slóðir sem hafa verið notaðar, en allt að 1,7 milljón ferðamenn til landsins hafi hitað upp í fasteignamarkaðnum.

Segja þeir þá 344 þúsund íbúa landsins búa í um 130 þúsund heimilum, en með þessum ferðamannastraumi sé aukin eftirspurn eftir húsnæði og það hafi hækkað um 23% á einu ári. Alþjóðlega fasteignaráðgjöfin Knight Frank segir hér á landi vera mestu fasteignaverðbólgu í heiminum og vísa í 6,5% hækkun á þremur mánuðum á verði fjögurra herbergja einbýlishús á fallegum stað.

Þessi mikla hækkun hafi neytt ríkið til að grípa í taumana til að halda aftur af hækkunum, og því hafi verið sett 90 daga hámark á útleigu íbúða almennings til ferðamanna.