Aðspurðir um áhrif launahækkana í kjölfar nýgerðra kjarasamninga á verð vöru og þjónustu í nýlegri könnun Deloitte sögðu 71% fjármálastjóra að áhrifin væru til hækkunar verðlags en aðrir sögðu samningana ekki hafa haft áhrif á verðlag.

Könnunin var sett á laggirnar að fyrirmynd Deloitte á alþjóðavísu og er tilgangur hennar að sýna mat fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins á stöðu fyrirtækja og efnahagsumhverfisins. Þessi könnun er gerð tvisvar á ári og er þetta í fimmta sinn sem könnunin er gerð.

Einnig var spurt hvort nýgerðir kjarasamningar hefðu haft áhrif á afkomu fyrstu mánuði ársins og sögðu 87% fjármálastjóra samningana hafa haft áhrif til lækkunar afkomu. Aðspurðir hafa tveir af hverjum þremur fjármálastjórum orðið varir við aukinn kaupmátt í rekstri sinna fyrirtækja.

Spurt var um áhrif styrkingar krónunnar á fyrstu mánuðum ársins á verð vöru og þjónustu en 49% fjármálastjóra sögðu að styrking krónunnar hefði ekki haft nein áhrif, 34% sögðu áhrifin vera til lækkunar verðlags og 17% sögðu þau vera til hækkunar verðlags. Þrátt fyrir þetta er gengisþróun íslensku krónunnar talin vera helsti áhættuþáttur í rekstri fyrirtækja í dag en einnig vaxtastig, verðbólga og þróun einkaneyslu. Hóflegrar bjartsýni gætir varðandi þróun EBITDA hagnaðar fyrirtækjanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .