Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sent frá sér álit eftir árlega heimsókn sína til Íslands. Í álitinu segir meðal annars að dregið hefur úr áhyggjum af ofhitnun sökum þess að hægari vöxtur sé í íslenska hagkerfinu. En sérfræðingar á vegum AGS spá því að hægja muni á hagvexti þar til hann verði sjálfbær sem þeir segja að sé í kringum 2%. Sjóðurinn telur jafnframt brýnt að bæta samningalíkan á vinnumarkaði og tengja það framleiðnivexti og samkeppnishæfni.

Styrking krónunnar hefur dregið úr vexti ferðamennsku og aukið framboð nýs húsnæðis hefur hægt á verðhækkunum á fasteignamarkaði. Þá kemur einnig fram að hátt olíuverð og aukin samkeppni í flugsamgöngum séu áskoranir fyrir fluggeirann.

„Efnahagsstefnan þarf því að miða að því að efla viðnámsþrótt hagkerfisins. Efnahagsreikningar heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa styrkst gríðarlega undanfarin ár. Þar sem hagkerfið er lítið, opið og næmt fyrir áföllum er nauðsynlegt að hafa borð fyrir báru með lágum opinberum skuldum, öflugu eiginfé og lausafé banka ásamt nægum gjaldeyrisforða, auk þess að móta stefnu sem eykur vaxtarmöguleika, styður við samkeppnishæfni og dregur úr áhættusækni," segir í álitinu.

Að lokum kemur fram að AGS telji æskilegt að sameina allt eftirlit með fjármálageiranum, þrautavaralánveitingar og verkefni skilavalds í Seðlabankann. Segir í álitinu að það muni auka samlegðaráhrif, koma í veg fyrir óþarfa skörun verkefna og samþætta betur eindar- og þjóðhagsvarúð.