Kjararáð segir að laun sem heyri undir ráðið séu 15% undir launavísitölu Hagstofu Íslands, ef miðað er við ársbreytingu launa frá því í júní 2006. Í frétt á heimasíðu Kjararáðs hefur kjararáð reiknað út mánaðarlega launavísitölu á sama hátt og launavísitala Hagstofu Íslands er reiknuð út en ráðið naut leiðsagnar hagstofunnar við útreikningana.

Miðast útreikningarnir við launaþróun frá því að kjararáð tók til starfa þann 1. júlí 2006, en rúmlega 500 manns hafa heyrt undir ákvörðunarvald ráðsins á þessum tíma. Miðað við ársbreytingu launa má lesa út úr gröfum ráðsins að launavísitala Hagstofunnar hafi hækkað um 117,2% frá þeim tímapunkti, meðan launavísitala kjararáðs hafi hækkað um 84,7%.

Ef launavísitölurnar fyrir október 2017 er borin saman sést að munurinn er 15% af launavísitölu Hagstofunnar. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun úrskurðaði Kjararáð um það að dómarar við nýjan Landsrétt fá á bilinu 1,7 til 1,8 milljónir króna í mánaðarlaun. Einnig hefur verið greint frá gagnrýni Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ á ráðið.