Samtök atvinnulífsins gagnrýna yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ, sem samþykkt var þann 3. október síðastliðinn, um hagræðingaraðgerðir Icelandair. Þetta kemur fram í frétt á vef Samtakanna.

Icelandair hefur, í harðri alþjóðlegri samkeppni við erlend flugfélög, ávallt starfað af heilindum á íslenskum vinnumarkaði og virt alla kjarasamninga. Icelandair hefur gengið mun lengra en önnur félög í sambærilegum rekstri í þjónustu við flugvélar og öðrum rekstrarþáttum hér á landi," segir í fréttinni.

Samtökin benda á að félagið hefur skapað um 1.500 störf á síðastliðnum fjórum árum en störf hjá félaginu eru nú 4.300 en voru 2.800 árið 2013 og hafa þau nær öll orðið til hér á landi. Flugfélagið sé einnig þekkt fyrir að bjóða upp á gott starfsumhverfi.

Þá kemur einnig fram að Icelandair hafi reist þjálfunarsetur í Hafnarfirði með það að markmiði að flytja fjölmörg störf hingað til lands sem áður voru unnin erlendis.

Krefjandi aðstæður í flugrekstri hafa neytt flugfélagið til að ráðast í hagræðingaraðgerðir, meðal annars með því að segja upp starfsmönnum en kjarasamningum hefur verið fylgt í hvívetna.

Launakostnaður íslenskra fyrirtækja er einn sá hæsti í heimi. Á alþjóðamarkaði verða þau að bregðast við aukinni samkeppni, lækkun verða og hækkun kostnaðar með hagræðingu. Auknar öryggiskröfur hafa aukið þjálfunarkostnað flugliða og flugmanna mikið. Flugmönnum gefst almennt ekki kostur á hlutastarfi. Frumskyldur flugliða felast í því að gæta öryggis um borð og þjálfunarkostnaður flugliða í hlutastarfi er mun hærri hlutfallslega en flugliða í fullu starfi," segir í fréttinni.