Sænska viðskiptablaðið Affärsvärlden greindi frá því í dag að þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson hjá Kaupþingi banka hefðu notið hæstu launa norræna forstjóra á síðasta ári. Hvor um sig hefði fengið sem svarar 85 milljónum sænskra króna í laun eða um 830 milljónir króna.

Að sögn Affärsvärlden nær upphæðin sem hér um ræðir til allra launagreiðslna, kauprétta og bónusa sem þeir félagar njóta. Það kemur einnig fram að forstjóri stærsta skráða fyrirtækisins á Norðurlöndum, Olli Pekka Kallasvuo, hjá Nokia væri ekki nema hálfdrættingur á við þá félaga. Í greininni segir að hvor um sig þeirra félaga eigi bréf í Kaupþingi að andvirði eins milljarðs sænskra króna eða tæpa 10 milljarða. Það nær þá til allra kaup- og valréttarsamninga.