Tim Farron, leiðtogi Frjálslyndra Demókrata í Bretlandi segir óvænta ákvörðun Theresu May, forsætisráðherra landsins um að boða til kosninga í 8. júní næstkomandi vera tækifæri til að breyta stefnu landsins.

Á innan við klukkutíma eftir tilkynningu um nýjar kosningar hefur fjölgað um 1.000 meðlimi í flokknum. En flokksmenn eru þó einungis í kringum 90 þúsund í landinu, meðan meðlimir verkamannaflokksins eru til að mynda vel yfir hálfri milljón.

„Ef þú vilt koma í veg fyrir hrikalegar afleiðingar harðrar útgöngu. Ef þú vilt halda Bretlandi í sameiginlega markaðnum. Ef þú vilt að Bretland verði opið, umburðarlynt og sameinað, þá er þetta tækifæri þitt,“ sagði Farron. „Einungis Frjálslyndir demókratar geta komið í veg fyrir meirihluta íhaldsmanna.“

Á sama tíma og Verkamannaflokkurinn hefur undir forystu Corbyn, sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fagnar kosningunum, fært sig frá andstöðu við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa Frjálslyndir demókratar hert stuðning sinn við sambandið.

Tim Farron hefur sagð flokkinn þann eina sem geti hindrað úrsögnina og það sem hann kallar hræðilegar afleiðingar hennar.

Hefur hann kallað eftir nýjum kosningum um úrsögnina og kusu flestir þingmenn flokksins gegn ákvörðun um að virkja úrsagnarákvæði Lisbon sáttmálans, svokallað ákvæði 50, þegar um það var kosið í þinginu.