Málsóknarfélag, sem kallast Náttúruvernd 1, hefur stefnt Matvælastofnun (MAST), Umhverfisstofnun og Arnarlaxi. Félagið krefst þess að veiting rekstrar- og starfsleyfis fyrir 10 þúsund tonna sjókvíaeldi á norskættuðum laxi í Arnarfirði verði ógild, en leyfin voru veitt síðasta sumar. Þess ber að geta að fyrir hafði fyrirtækið leyfi fyrir 3 þúsund tonna eldi, sem fékk árið 2012. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, flytur málið fyrir hönd málsóknarfélagsins. Hann segir að þetta sé líklega eitt umfangsmesta mál sem hann hafi tekið sér fyrir hendur.

„Við köllum þetta málsóknarfélag Náttúruvernd 1 og það er vegna þess að framhaldinu verða stofnuð fleiri félög — Náttúruvernd  2, Náttúruvernd 3, Náttúruvernd 4 og eftir atvikum meira," segir Jón Steinar. "Það er ætlun þess hóps sem stendur að þessu að láta reyna á lögmæti sjókvíaeldisstöðva víðsvegar um land. Búið er að reyna að andæfa þessu á stjórnsýslustiginu en það hefur ekki borið árangur og þess vegna er nú verið að fara með málið fyrir dómstóla. Í grunninn snýst þetta allt saman um verndun verðmætra náttúruréttinda á Íslandi."

Viðskiptablaðið hefur stefnu málsóknarfélagsins Náttúruverndar 1 undir höndum. Í henni kemur fram hverjir standa að félaginu en það eru eru eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði; eigandi Hringdals í Arnarfirði; bóndi í Grænuhlíð í Arnarfirði; eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .