„Þarna var fyrst og fremst heilbrigð skynsemi látin ráða för. Við mátum það þannig á þeim tíma að það væri forgangsmál að hækka framfærsluna. Á sama tíma vorum við auðvitað að afla ríkinu meiri tekna, sem núverandi ríkisstjórn hefur kosið að slá af,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við Morgunblaðið .

Katrín gegndi embætti menntamálaráðherra árið 2009 en á því ári voru framfærslulán námsmanna erlendis hækkuð um tuttugu prósent án þess að fram hafi farið greining á þörf hækkunar þeirra. Frá þessu greinir í svari Illuga Gunnarssonar, núverandi menntamálaráðherra, við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um skerðingu framfærslulána til námsmanna erlendis.

Í svari Illuga kemur fram að að á fimm árum megi ætla að þessi hækkun umfram þörf, samkvæmt greiningu Analytica, hafi samtals numið þremur og hálfum milljarði króna, en ríkissjóður geti búist við að fá um helming fjárhæðarinnar endurgreiddan.

„Það var ekki nokkur maður sem deildi um þessa ákvörðun á sínum tíma, því þessi hækkun hafði setið eftir á árunum áður. Á sama tíma vorum við að hækka framfærsluna til námsmanna innanlands vegna verð- lagsbreytinga og þá ákváðum við hreinlega að láta eitt yfir alla ganga,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið.