Logi Bergmann Eiðsson sem lengi hefur starfað sem fréttaþulur, fyrst á RÚV en síðan á Stöð 2, hefur snúið aftur til Morgunblaðsins þar sem hann hóf fyrst fjölmiðlaferil sinn árið 1988. Dagskrárstjóri Stöðvar 2 segir Loga verða að virða hvort tveggja uppsagnarfrest og samkeppnisákvæði í samningum sínum við fyrirtækið.

Hefur Logi verið ráðinn til að sjá um dagskrárgerð á útvarpsstöðinni K100 sem Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is eignaðist nýlega eins og Viðskiptablaðið sagði frá.

Mun hann einnig starfa á ritstjórn Morgunblaðsins auk þess sem í undirbúningi er framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga í samstarfi Árvakurs og Sjónvarps Símans að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

Í frétt Vísis um málið er rætt við Jóhönnu Margréti Gísladóttur dagskrárstjóra Stöðvar 2 sem segir það ekkert nýtt að starfsfólk stöðvarinnar sé ráðið til annarra fjölmiðla.

„Hins vegar er ljóst að Logi er með skriflegan tólf mánaða uppsagnarfrest,“ segir Jóhanna en í frétt Morgunblaðsins er ráðningin sögð taka strax gildi og hann hafi þegar hafið störf fyrir fyrirtækið. „[O]g að auki 12 mánaða samkeppnisákvæði sem hann þarf að sjálfsögðu að virða.“