*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Innlent 17. febrúar 2017 10:01

Segja mikinn skort á hjúkrunarfræðingum

Að mati Félags hjúkrunarfræðinga vantar 290 hjúkrunarfræðinga til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum.

Ritstjórn
Ráðherra afhent skýrsla um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga frá Guðbjörgu Pálsdóttur, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Aðsend mynd

Í nýútkominni skýrslu um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga sem unnin var af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að alls vanti 290 hjúkrunarfræðinga til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum á Íslandi. Samkvæmt mati framkvæmdastjóra hjúkrunar og hjúkrunarforstjóra vantar 523 hjúkrunarfræðinga til starfa samkvæmt áætlaðri þörf.

„Samkvæmt greiningu á vinnumarkaði hjúkrunarfræðinga eru einungis 69% þeirra félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og starfa um þúsund hjúkrunarfræðingar við annað en hjúkrun. Þá er brottfall nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga úr starfi að meðaltali 15% á undanförnum fimm árum. Launamunur á hjúkrunarfræðingum og öðrum stéttum með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi hjá hinu opinbera er um 20%. Algengustu byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga eru 359 þúsund krónur fyrir fullt starf og meðaltalsdagvinnulaun hjúkrunarfræðinga eru 526 þúsund krónur,“ segir í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að til að tryggja næga mönnun í hjúkrun og þar með öryggi sjúklinga og að draga úr dánarlíkum þeirra er nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða hjá hinu opinbera og öðrum heilbrigðisstofnunum.