Félag atvinnurekenda segir að rafrettufrumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra gangi enn lengra en frumvarp forvera hennar Óttarrs Proppé, að því leyti að það gerir ráð fyrir takmörkunum á notkun rafrettna og viðskiptum með þær, hvort sem þær innihalda nikótín eða ekki.

„Afleiðingarnar eru skringilegar, þannig virðast ákvæði frumvarpsins þýða að setja verði á nikótínlausar rafrettur merkingar um að þær innihaldi nikótín!“ segir í frétt á vef FA en einnig að þetta sé meðal þeirra mörgu atriði í frumvarpinu sem Félag atvinnurekenda gagnrýnir í umsögn sinni til Alþingis.

Ennfremur bendir félagið á að fjölmörg ákvæði frumvarpsins gangi lengra en Evróputilskipunin, sem því er ætlað að innleiða, án þess að rökstutt sé hvers vegna það sé nauðsynlegt. Þar á meðal séu ákvæðin um bann við sýnileika rafrettna í verslunum og ákvæði um takmarkanir á notkun þeirra sem leggja rafrettur að öllu leyti að jöfnu við sígarettur.

FA bendir á að undanfarin ár hafa ýmsar skaðaminnkandi tóbaks- og nikótínvörur, sem stuðlað geta að því að draga úr reykingum, komið á markað. „Eigi að vera hægt að útskýra fyrir neytendum hvernig þær virka, hvers vegna þær fela í sér minni skaða og hvernig á að nota þær, krefst það þess að hægt sé að sýna og fjalla um vöruna. Allir vita hins vegar hvernig á að nota sígarettu. Sú takmörkun á aðgengi og upplýsingum um rafsígarettur sem frumvarpið felur í sér styður þess vegna við sterka stöðu sígarettunnar á markaði; vörunnar sem óumdeilt er sú skaðlegasta í hópi tóbaks og tengdra vara.“