Útreikningar fjármálaráðs, sem er óháð ráð sérfræðinga sem leggur mat á fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2018 til 2022, benda til að aðhaldsstig ríkissjóðs muni slakna stærstan hluta tímabilsins.

Að sögn ráðsins er það aðeins árið 2018 sem það lítur út fyrir að aðhald muni aukast lítillega. „Þannig virðist sem stjórnvöld séu að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa og að sú slökun á aðhaldi ríkisfjármála sem hefur átt sér stað á undanförnum árum muni halda áfram á tímabili áætlunarinnar,“ segir í álitsgerð fjármálaráðs .

Ráðið tekur fram að það er óheppilegt að slakað sé á aðhaldsstigi ríkisfjármála þegar spenna hefur myndast í þjóðarbúskapnum eins og staðan er núna. Því er það sameiginlegt verkefni stjórnar opinberra fjármála og peningamálastefnu að vinna að stöðugleika í hagkerfinu.

Gunnar Haraldsson er formaður fjármálaráðs og Axel Hall varaformaður. Í ráðinu sitja þau: Ásgeir Brynj­ar Torfa­son, Þóra Helga­dótt­ir Frost, Arna Olafs­son, sem er varamaður, og Hjör­dís Dröfn Vil­hjálms­dótt­ir, sem er einnig  varamaður.

Benedikt: Margar afar gagnlegar ábendingar

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í færslu á Facebook ábendingar ráðsins séu margar afar gagnlegar. „Margar snúa að framsetningu talna og upplýsinga, og má taka undir þær, enda er ríkisbókhaldið afar flókið (til dæmis hvenær skynsamlegt er að setja fram tölur á nafnvirði, hvenær raunvirði og hvenær sem hlutfall af landsframleiðslu),“ skrifar Benedikt.

Hann bætir við að meginatriði í gagnrýninni snúist að aðhaldi í ríkisrekstri og er hann því sammála að aðhaldið megi ekki vera minna miðað við þær væntingar sem að ríkisstjórnin hafði til hagkerfisins á næstu árum. „Á móti verður auðvitað að taka tillit til þess að á árunum eftir hrun hefur viðhald og uppbygging verið í lágmarki og því nauðsynlegt að fara í framkvæmdir á mörgum sviðum. Ríkisfjármál verða alltaf að feta einstigið á milli þessara sjónarmiða,“ bætir hann við.