Bæjarstjórn Kópavogsbæjar fundaði í dag um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2016. Allir flokkar í bæjarstjórn komu að vinnslu fjárhagsáætlunarinnar.

Í áætluninni kemur fram að það sé mat bæjarstjórnar að efnahagsaðstæður í landinu séu sveitarfélögum mjög óhagstæðar.

Svo eru aðstæður metnar vegna þess að á sama tíma og launahækkanir eru miklar er einnig þensla á fasteignamarkaði, sem gerir sveitarfélaginu erfitt um fjárfesingar. Aukreitis er minnst á að málefni fatlaðra, sem Kópavogsbær tók yfir, mun reynast einhverju kostnaðarsamara en áætlað var.

Bærinn áætlar þó að ná markmiðum sínum um niðurgreiðslu skulda á næsta ári. Þá mun skuldahlutfall Kópavogs vera komið niður í 156,1% við árslok 2016.

Aukin áhersla verður einnig lögð á íbúalýðræði, og verður 100 milljónum króna varið til verkefna innan nærsamfélagsins sem íbúar geta ráðstafað með lýðræðislegri kosningu. Í kjölfarið verður árangur íbúalýðræðisins svo mældur og stefnumótun gerð út frá þeim mælingum.

Að lokum kemur fram að samkvæmt áætlun næsta árs verði A-hluti bæjarsjóðsins rekinn með 85 milljóna rekstrarafgangi.Samstæða Kópavogsbæjar verður þá einnig rekin með 246 milljón króna rekstrarafgangi á næsta ári.