Þinglýsingar eignaskiptayfirlýsinga og lóðamarkayfirlýsinga hafa tafist nokkuð hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, segir að tafirnar megi rekja til manneklu, veikinda, skipulagsbreytinga og mikilla anna hjá embættinu vegna mikils fjölda eignaskiptayfirlýsinga. Í þinglýsingalögum segir að þinglýsingastjóri, í þessu tilviki sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, skuli innan tveggja vikna greiða úr því hvort skjal sem berst til þinglýsingar skuli fært í þinglýsingabók, það er hvort því verði þinglýst.

Bergþóra segir eignaskiptayfirlýsingar þó töluvert flóknari viðfangs en einfaldari samninga á borð við leigusamninga eða samninga um fasteignaviðskipti. Því sé ekki raunhæft að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingum innan þessa frests. „Við erum búin að endurskipuleggja okkur og á morgun vonumst við til að geta sett upplýsingar á heimasíðuna okkar um hvað við erum komin langt með að vinna skjöl sem bárust í desember,“ segir Bergþóra. Hún segir þrjá lögfræðinga nú starfa við að vinna niður uppsöfnuð skjöl og hafi meðan á þjálfun þeirra stóð fyrst tekið einfaldari eignaskiptayfirlýsingar til þinglýsingar.

„Við erum að vinna staflann kerfisbundið niður og sjáum vonandi betri stöðu á morgun.“ Þrír lögfræðingar sinna nú þessum verkefnum tímabundið í stað eins áður. Þetta segir Bergþóra gert til að koma í veg fyrir að sambærileg staða komi ekki upp aftur þannig að nú eru þrír starfsmenn þjálfaðir sérstaklega í að sinna eignaskiptayfirlýsingum í stað eins áður.

Dýrkeyptar tafir

„Þinglýsingar eru hins vegar almennt í mjög góðri stöðu þannig að við unnum okkur inn tíma þangað til lögfræðingarnir fóru á námskeið til að kynna sér þinglýsingar eignaskiptayfirlýsinga,“ segir Bergþóra.

Örn Kjærnested, framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Bakka, segir tafir á þinglýsingum geta valdið umtalsverðum fjárhagslegum skaða. Þannig segir hann að ekki sé hægt að selja fasteignir í fjölbýlishúsum fyrr en eignarskiptasamningum hefur verið þinglýst. „Dæmi um þetta er eignaskiptayfirlýsing vegna Snæfríðargötu 1, 3, 5, 7 og 9 í Mosfellsbæ. Þarna eru samtals 25 íbúðir og heildarsöluverð þeirra er um 1,1 milljarður. Við undirritun og þinglýsingu kaupsamnings er algengt að útborgun sé 10-15% af kaupverði, auk þess sem fokheldislán er gefið út sem er um það bil 40% af kaupverði,“ segir Örn.

„Um leið og hægt er að þinglýsa kaupsamningum þá getur seljandi þessara eigna gert ráð fyrir að fá greiddar 110–165 milljónir og 440 milljónir í fokheldislánum. Áætlað tjón fyrir hverja viku sem eignaskiptayfirlýsing tefst getur því verið milljón á viku,“ segir Örn. „Það er ekki eins og ég geti farið eitthvert annað til að þinglýsa og sýslumaður getur ekki borið við að þinglýsing eignaskiptayfirlýsinga sé svona flókin. Þegar hún er komin til sýslumanns hafa þrír aðilar farið yfir yfirlýsinguna – sá sem gerir hana, byggingafulltrúi og Þjóðskrá og loks sýslumenn,“ segir Örn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .