*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 19. maí 2017 15:32

Segja um dulda hótun að ræða

Kjarninn hafnar því að dreifing upplýsinga varði við lög og gera alvarlega athugasemd við kröfur um að fjölmiðillinn eigi að eyða upplýsingum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjölmiðillinn Kjarninn hafnar áminningu Samkeppniseftirlitsins um að það geti varðað við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem eiga að fara leynt alfarið og segjast ekki geta borið ábyrgð á mistökum eftirlitsins við birtingu upplýsinga.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sendi Samkeppniseftirlitið frá sér yfirlýsingu fyrr í dag vegna þess að við miðlun samrunaskrár um kaup Fjarskipta, móðurfélags Vodafone á stærstum hluta 365 miðla, hafi láðst að fyrirbyggja að hægt væri að lesa trúnaðarupplýsingar sem ætlunin var að birtust ekki með.

Ekki þjóðaröryggismál

Jafnframt bendir Kjarninn á að samkvæmt lögum geti blaðamaður ekki brotið lög um miðlun trúnaðarupplýsinga, heldur einungis sá sem láti honum upplýsingarnar í té.

Þeirri vernd sé einungis aflétt ef málefni varði þjóðaröryggismál sem ljóst sé að eigi ekki við um frétt Kjarnans um fimmtungs fækkun starfsfólks í kjölfar kaupanna eða ætlaðan sparnað því að leggja niður 41 stöðugildi og öðrum samlegðaráhrifum kaupanna.

Lítill vilji til að bera ábyrgð

„Og fullt tilefni er að gera athugasemd við að eftirlitsstofnun setji fram svo lítt dulbúna hótun gagnvart fjölmiðlum vegna þess að samrunaaðilar gerðu mistök við gerð skjals og Samkeppniseftirlitið birti skjalið með þeim mistökum,“ segir jafnframt í athugasemd Kjarnans. „Hér virðist sem lítill vilji sé til staðar til að axla ábyrgð á eigin mistökum, og þess í stað hengja sök í málinu á fjölmiðil.

Enn fremur er rétt að gera alvarlega athugasemd við þá kröfu Samkeppniseftirlitsins um að fjölmiðill eigi að eyða viðkomandi upplýsingum og miðla þeim ekki. Kjarninn segir fréttir. Trúnaður hans er við almenning, ekki eftirlitsstofnun eða fyrirtækin sem eru að sameinast.“