Seðlabankanum er tamt að nota orðið framleiðsluspenna að mati greiningardeildar Arion banka sem reynir að svipta hulunni af samhengi hennar við vaxtaþróun komandi missera í nýjasta markaðspunkti sínum .

Bendir greiningardeildin á að þrátt fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi haldið stýrvöxtum óbreyttum þá gerir ný verðbólguspá ráð fyrir lítilli verðbólgu og ný þjóðhagsspá fyrir minnkandi framleiðsluspennu.

Farið að bera á verðhækkunum

Hvort tveggja ætti að veita svigrúm til þess að vextir verði áfram lækkaðir ef forsendur haldast. Hins vegar sé þegar farið að bera á verðhækkunum á innlendum vörum sem komi til af því að krónan sé hætt að styrkjast gegn hækkandi launum. Því gerir greinendur bankans ráð fyrir meiri verðbólgu til lengri tíma en á móti vinni minnkandi framleiðsluspenna.

„Ef hið opinbera og vinnumarkaðurinn, óþekku börnin í augum peningastefnunefndar, hegða sér sómasamlega og framleiðsluspennan minnkar hratt er vaxtalækkun á árinu ekki óhugsandi,“ segir bankinn en telur þó líklegra að nefndin haldi vöxtum óbreyttum.

Orðið ekki tamt almenningi

Greiningardeildin bendir á að þó framleiðsluspennan snerti okkur öll þar sem hún sé veigamikill mælikvarði á efnahagsífið sé orðið öfugt við hjá seðlabankanum ekki jafn tamt almenningi.

Það sama verður varla sagt um þorra almennings, enda sækist framleiðsluspennan ekki eftir athygli heldur felur sig í hagfræðiritum,“ segir bankinn og nefnir að orðið spenna verið notað fjórum sinnum í 324 orða yfirlýsingu peningastefnunefndar í maí á síðasta ári.

Síðan þá hafi hins vegar nefndin slakað á orðanotkuninni, enda útlit fyrir að spennan í þjóðarbúskapnum hafi minnkað.

„Hver kannast ekki við það að vera djúpt sokkinn í samræður þegar viðmælandinn slengir fram hugtaki sem hringir einhverjum bjöllum, en þar sem nákvæm merking er umvafin þoku kinkar maður aðeins kurteislega kolli, heldur samræðunum áfram en flettir hugtakinu upp við fyrsta tækifæri? Framleiðsluspenna er gott dæmi um slíkt hugtak, það segir sig ekki alveg sjálft en gefur engu að síður óljósa mynd af merkingu sinni.“

Veltir á framleiðslugetu hagkerfisins

Bendir nefndin á að um mun matskenndara hugtak er að ræða heldur en til dæmis verðbólga eða atvinnuleysi, en framleiðsluspennan fer eftir eftirspurn. Það er hún fer eftir framleiðslugetu hagkerfisins, sem getur ef er of mikil leitt til hækkandi verðlags og þar með aukinnar verðbólgu.

Fram til ársins 2016 hafi þróun framleiðsluspennunar og vaxta Seðlabankans haldist í hendur en síðan hafi hagstæðar ytri aðstæður rofið sambandið að einhverju leiti.

„Þannig hefur fordæmalaus viðskiptakjarabati, styrking krónunnar, aukin samkeppni, veldisvöxtur ferðaþjónustunnar og traustari kjölfesta verðbólguvæntinga lagst á eitt með peningastefnunefndinni svo hún hefur ekki séð sig knúna til að hækka vexti eins og á fyrri uppgangstímum."