*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 5. desember 2018 17:55

Segja viðræður WOW og Indigo ganga vel

Wow air og Indigo Partners vilja ljúka samningum eins fljótt og auðið er.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

WOW air og Indigo Partners hafa fundað síðustu daga um mögulega fjárfestingu Indigo Partners í WOW air í kjölfar þess að hafa undirritað viljayfirlýsingu í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air. Bill Franke og fleiri frá Indigo Partners hafa varið tveimur dögum hér á landi til þess að kynnast félaginu og fara yfir framtíðartækifæri þess. Þetta er liður í áframhaldandi áreiðanleikakönnun sem mun liggja til grundvallar fjárfestingunni.  Báðir aðilar vilja ljúka samningum eins fljótt og auðið er. Áður en hægt er að ljúka samningum þurfa að liggja fyrir niðurstöður varðandi leiðarkerfi WOW air, flugvélaleigusamninga ásamt samningum við skuldabréfaeigendur félagsins.

„Þetta voru tveir afkastamiklir dagar þar sem rætt var um framtíðarrekstur flugfélagsins. Stjórnendateymi WOW air er sterkt, vörumerkið öflugt og félagið hefur mikil tækifæri,“ segir Bill Franke, stjórnandi Indigo Partners.

„Við erum mjög ánægð með heimsókn Indigo Partners og ljóst er að mikið má læra af Bill Franke og hans öfluga teymi um hvernig má byggja upp farsælt lággjaldaflugfélag. Það er leitun að betri og reyndari samstarfsaðila til þess að efla rekstur og tryggja framtíð félagsins,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og framkvæmdastjóri WOW air.

Það er Plane View Partners LLC sem veitir WOW air ráðgjöf í samningsferlinu.