Fréttatilkynning Íslandspósts ohf. sem Viðskiptablaðið sagði frá í gær , þar sem fyrirtækið hafnar því að hafa brotið sátt sína við Samkeppniseftirlitið vegna meðferðar á málum ePósts ehf., er aumt yfirklór og stangast í grundvallaratriðum á við staðreyndir og gögn málsins að mati Félags atvinnurekenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem sent hefur á fjölmiðla öll gögn sem þeir eiga til að staðfesta mál sitt.

Í fyrsta lagi segja þeir að ákvæði sáttar sem gerð var á milli Íslandspóst og Samkeppniseftirlitsins frá í febrúar 2017 vera skýr um það að Íslandspósti beri að reikna markaðsvexti á jafnt ný sem eldri lán til dótturfélaga (grein 9.2).

Forstjóri Íslandspósts segir hins vegar í bréfi 23. október 2018 til eftirlitsnefndar, sem á að hafa eftirlit með að fyrirtækið haldi sáttina: „Þar sem sameining hafði verið ákveðin á árinu 2017 þótti ekki efni til að byrja á því ári að reikna vexti á viðskiptastöður félaganna á því ári en það hafði ekki verið gert fram að því.“

Að mati FA fer Íslandspóstur hér augljóslega í bága við sáttina, því að í 9. grein hennar segir jafnframt að eigi að sameina dótturfélag móðurfélaginu verði bæði álit eftirlitsnefndarinnar og samþykki Samkeppniseftirlitsins að liggja fyrir. Eftirlitsnefndin hefur jafnframt staðfest við FA að álit hennar á sameiningunni liggi ekki fyrir.

Í öðru lagi segir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandspósts í bréfi til eftirlitsnefndarinnar 15. október 2018, þar sem farið var fram á álit hennar á sameiningunni, að sameining ePósts og Íslandspósts ohf. hafi verið ákveðin á stjórnarfundi Íslandspósts 25. júní 2018.

Bendir FA á að þessu beri ekki saman við áðurnefnt bréf forstjórans, sem segir að sameiningin hafi verið ákveðin 2017. Hvort sem kunni að vera rétt, bendir félagið á að ljóst sé að ekki var beðið um álit eftirlitsnefndarinnar fyrr en hátt í fjórum mánuðum eftir stjórnarfundinn.

Stjórn Íslandspósts hefur því mátt vera ljóst að mati FA að ársreikningur ePósts, sem er dagsettur sama dag og stjórnarfundurinn fór fram, 25. júní, væri rangur og ekki í samræmi við ákvæði sáttarinnar, enda lá ekki fyrir neitt samþykki samkeppnisyfirvalda.

Í þriðja lagi dregur FA í efa að það sé rétt sem Íslandspóstur segir í tilkynningu sinni að ástæða þess að ekki var farið fram á álit eftirlitsnefndarinnar til sameiningarinnar fyrr en í október, hafi verið að um væri að ræða „töluvert umfangsmikið verkefni og því eðlilegt að það taki nokkurn tíma í vinnslu, en nefndinni hefur verið haldið upplýstri um gang mála. Formlegt og fullbúið erindi barst nefndinni svo í október.“

Máli sínu til stuðnings bendir FA á að erindið sé ein blaðsíða, og þar sé vísað til eins fylgiskjals, minnisblaðs sem dagsett er 24. nóvember 2017. Önnur gögn hafi ekki fylgt beiðninni.

„Það hefur þá tekið fjármálastjóra Íslandspósts fjóra mánuði að skrifa eina blaðsíðu,“ segir í fréttatilkynningu FA sem jafnframt bendir á að erindið hafi verið sent til nefndarinnar þremur dögum eftir að FA hafði sent henni kvörtun vegna brota Íslandspósts á sáttinni.

Í fjórða lagi , eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um , bendir FA á að ef reiknaðir hefðu verið markaðsvextir á lán Íslandspósts til ePóst frá 2013 væri staða skuldarinnar hátt í hálfur milljarður, en þess í stað er hún gefin upp sem 283 milljónir.

„Þessi gjörð stjórnenda Íslandspósts er þannig til þess fallin að fela raunverulegt tap fyrirtækisins á þessu tiltekna ævintýri þess í samkeppnisrekstri, sem engu hefur skilað. Tekjur ePósts voru á síðasta ári 10,8 milljónir króna og komu að langstærstum hluta frá Íslandspósti og dótturfélögum.“

Í fimmta lagi segir félagið að stjórnendur Íslandspósts hafi verið ósparir á villandi upplýsingar, jafnt til fjölmiðla sem og fjármálaráðuneytisins, sem borið hefur þær áfram til fjárlaganefndar Alþingis, um að sameining Íslandspósts og ePósts hafi verið ákveðin og því hafi ekki verið „efni til“ eða „viðeigandi“ að reikna vexti á lán frá móðurfélaginu.

„Við þessa upplýsingagjöf hefur steingleymst að nefna að hvorki álit eftirlitsnefndarinnar né samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir sameiningunni liggi fyrir.“

Hér má lesa fleiri fréttir um málefni Íslandspósts:

Hér má lesa pistla um málefni Íslandspósts: