BankNordik gerir ráð fyrir því að greiða viðbótar arðgreiðslu sem nemur  ekki minna en 100 milljón dönskum krónum, eða að lágmarki um 1,9 milljarði króna, þegar félagið hefur lokið við söluna á Íslenska tryggingarfélaginu Verði. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Tilkynnt var um söluna í október sl. en þá keypti Arion banki 51% hlutafjár í Verði af BankNordik. Samhliða sölunni var gert samkomulag sem heimilar Arion banka að kaupa 49% af útistandandi hlutum eigi síðar en á árinu 2017.

Í tilkynningu BankNordik kemur einnig fram að félagið búist við því að stjórnvöld muni samþykkja söluna á fyrri hluta þessa árs.