Fjárfestar sem stefna að uppbyggingu hótela og verslunarhúsnæðis á aðliggjandi lóðum við áætlaðar höfuðstöðvar Landsbankans hafa leitað eftir aðkomu borgaryfirvalda að málinu.

Þeir óttast að seinagangur Landsbankans geti stefnt uppbyggingu þeirra við Hörpu og nærliggjandi lóðir í hættu að því er fram kemur í DV.

Ákvörðun um staðarvel enn ekki tekin

„Bankinn frestaði á sínum tíma hönnunarsamkeppni til að fara yfir þau sjónarmið sem fram höfðu komið, meðal annars um staðarval. Sú vinna stendur enn yfir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun í málinu,“ segir í skriflegu svari Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans við fyrirspurn blaðsins.

Ákvörðun bankans um að kaupa lóðina við Austurhöfn á 957 milljónir króna í maí 2014 var harðlega gagnrýnd á sínum tíma, þar á meðal ýmsum stjórnarþingmönnum og þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

8 milljarða króna fjárfesting

Framkvæmdirnar áttu að hefjast í lok þessa árs eða byrjun þess næsta, og áttu þær að fela í sér heildarfjárfestingu sem nemur um átta milljörðum íslenskra króna, en húsnæðið ætti að vera um 16.500 fermetrar að stærð.

Tryggvi Pálsson, fyrrverandi formaður bankaráðsins sagði í ræðu á aðalfundi Landsbankans í apríl síðastliðnum að áður en næstu skref yrðu tekin þyrfti að lyggja fyrir að ríkið sem stærsti eigandi bankans væri ekki á móti áformunum. Jafnframt kom fram að spara mætti hundruð milljóna á ári með flutningi í nýja byggingu.

Tengjast allar með göngugötu og bílakjallara

Framkvæmdir við Mariott Edition lúxushótelið sem rísa á við Hörpu, framkvæmdir við þriðju lóðina á Austurhafnarreitnum þar sem fyrirtækið Kolufell hyggst reisa íbúða- og verslunarhúsnæði sem og framkvæmdir ÞG Verk á gamla bílastæðareitnum við Tollhúsið, þar sem verslun H&M á meðal annars að rísa, munu allar tengjast með göngugötu og sameiginlegum bílakjallara.

Samkvæmt hagsmunaaðilum sem blaðið ræddi við þá er ótti meðal þeirra að ekkert muni gerast á lóð Landsbankans á næstu mánuðum, jafnvel árum, og benda þeir meðal annars á að erfitt verði að reka lúxushótel meðan aðrar framkvæmdir á reitnum standi yfir.

Einnig þyrfti bankinn að taka þátt í framkvæmdum við bílastæðakjallarann, en ekki sé hægt að byggja hann undir byggingu sem ekki sé búið að hanna. Samt sem áður segja þeir að fari geti svo að hann yrði byggður án aðkomu bankans.