Yfivinnubann flugumferðarstjóra hefur nú fjórum sinnum raskað flugi, nú síðast í fyrrinótt og gærmorgun en þá voru aðeins þrjár vélar af 27 á áætlun. Sem dæmi hefur bannið valdið seinkunum um 1.200 flugferða hjá Icelandair og haft áhrif á 200 þúsund farþega félagsins.

Samtök ferðaþjónustunnar og IATA áhyggjufull

Þar fyrir utan hefur íslenska flugumsjónin nokkrum sinnum ekki getað sinnt öllu flugi um flugstjórnarsvæðið og þurft að beina flugvélum á flugi milli Evrópu og Norður Ameríku suður fyrir svæðið. Það veldur truflunum og viðbótareldsneytiskostnaði fyrir flugfélög og hafa alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, lýst yfir áhyggjum til ISAVIA vegna þessa.

Hafa Samtök ferðaþjónustunnar lýst yfir verulegum áhyggjum af mögulegum áhrifum yfirvinnubanns flugumferðarstjóra á íslensku ferðaþjónustuna.

Vilja tvöfallt á við aðra hópa

Kjaradeila flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, sem semja fyrir hönd ISAVIA er í hnút, en þeim hafa verið boðnar sambærilegar launahækkanir og þorri vinnumarkaðarins hefur samið um á grundvelli SALEK-samkomulagsins.

„Þeir hafa staðið fastir á sínu og ég held að það sé óhætt að segja að það séu tvöfalt meiri hækkanir en aðrir hópar hafa fengið,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Morgunblaðið í dag