Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn lagði á útgerðarfyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum. Seðlabankanum er einnig gert að greiða allan málskostnað eða 4 milljónir. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.

Málið hófst með húsleit Seðlabankans hjá Samherja árið 2012 og sérstakur saksóknari tók í framhaldi við málinu. Fyrir tveimur árum ákvað saksóknari að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota en Seðlabankinn skoðaði í framhaldinu hvort ástæða væri til að beita stjórnvaldssektum.

Síðasta sumar lagði Seðlabankinn síðan fram sáttatilboð sem hljóðaði upp á 8,5 milljóna króna sekt en Samherji hafnaði því. Í framhaldinu hækkaði Seðlabankinn upphæðina í 15 milljónir.

Seðlabankastjóri sagður fara offari

Samherji taldi að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, og aðrir starfsmenn bankans, hefðu verið vanhæfir til meðferðar máls á hendur honum. Þeir hafi reitt afar hátt til höggs í rannsókn sinni og öllum málatilbúnaði. Þeim hafi reynt um megn að viðurkkenna að þeir hafi farið offari gegn Samherja.  Þá visaði fyrirtækið til þess að Már hefði margsinnis tjáð sig opinberlega um meint brot fyrirtækisins.

Þá benti Samherji á að Seðlabankinn hefði verið búinn að fella niður málið gegn honum og því hafi stjórnvaldssektin í raun verið endurupptaka sem fái ekki staðist stjórnsýslulög.

Undir það tekur héraðsdómur sem kemst að þeirri niðurstöðu að bankinn hafi ekki með neinum hætti sýnt fram á við meðferð málsins á hvaða grundvelli Seðlabankanum hafi verið heimilt að taka málið upp að nýju. Enginn ný gögn eða vísbendingar hafi komið fram. Í ljósi þess hversu mjög málið hefði tafist hefði þó verið ríkt tilefni til slíks rökstuðnings.