Samkeppniseftirlitið gaf út ákvörðun í síðustu viku þar sem Norvik, móðurfélag Byko, var sektað um 650 milljónir króna vegna brots Byko gegn samkeppnislögum. Í ákvörðuninni kemur fram að til þess að stuðla meðal annars að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyri sé sektin lögð á móðurfélag Byko, Norvik.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, héraðsdómslögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, segir það heyra til þröngra undantekninga að sekta félög á samstæðugrundvelli.

„Það er þó ekki óþekkt að sekt sé lögð á móðurfélag og nýlegt fordæmi er fyrir slíku með dómi Hæstaréttar í máli Langasjávar og Síldar og fisks sem féll í lok síðasta árs. Í því máli, líkt og þekkist í framkvæmd í Evrópu, segir að ekki nægi aðeins að félagið sé undir yfirráðum móðurfélagsins heldur þarf einnig að liggja fyrir að dótturfélagið hafi ekki haft raunverulegt frelsi til að ákveða aðgerðir sínar á markaði,“ segir hún.

Heiðrún Lind segir að í slíkum tilvikum þurfi móðurfélagið þá í raun að hafa stýrt aðgerðum dótturfélagsins. „Miðað við atvikalýsingu í þessu máli verður ekki séð að móðurfélagið hafi haft vitneskju um hið meinta samráð eða stýrt hinni brotlegu háttsemi dótturfélagsins og í því ljósi er fljótt á litið langsótt að leggja sekt á Norvik en ekki Byko.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .