Áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði í síðustu viku að sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Byko og Norvik skuli lækkuð úr 650 milljónir í 65 milljónir króna. Þar með hefur nefndin fellt úr gildi ákvarðanir eða lækkað sektir í þremur af síðustu fjórum málum þar sem Samkeppniseftirlitið hefur sektað fyrirtæki.

Þær sektir sem Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að leggja skuli á fyrirtæki frá upphafi árs 2014 nema samtals 1.170 milljónum króna í fjórum málum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt úr gildi samtals 1.005 milljónir króna af þessum sektum. Fjárhæð þeirra sekta sem standa eftir er því aðeins 165 milljónir. Vert er að taka fram í þessu samhengi að minnst þrjú þessara mála eru enn til meðferðar og upphæðin gæti bæði hækkað og lækkað.

Munu skoða málið betur

„Þetta er bara kerfið að störfum," segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, um ofangreindar ákvarðanir áfrýjunarnefndarinnar. „Það má segja að nefndin hafi verið að skoða mjög nákvæmlega ákvarðanir okkar og það er ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Þetta sýnir auðvitað hvað það eru gríðarlega miklar kröfur gerðar til ákvarðana Samkeppniseftirlitsins, og ég myndi segja að þegar horft er heilt yfir þá sé ekki hægt að lesa neitt sérstakt út úr því,“ segir hann.

Páll hafnar því alfarið að nýlegir úrskurðir áfrýjunarnefndar beri í einhverjum tilfellum vott um langsótta lagatúlkun hjá Samkeppniseftirlitinu. „Það er á engan hátt hægt að draga þá ályktun. Það er eðlilegt að aðilar láti reyna á ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins og að áfrýjunarnefndin sé ekki í öllum tilvikum sammála Samkeppniseftirlitinu.“

Segja ekki lagt mat á sektirnar

Í kjölfar umfjöllunar Viðskiptablaðsins um málið birti Samkeppniseftirlitið frétt á vefsíðu sinni . Þar segir meðal annars að í tveimur af þeim þremur málum sem um ræðir hafi áfrýjunarnefndin ekki lagt mat á sektir við ógildingu ákvörðunar. Það sé ekki skoðun forstjóra Samkeppniseftirlitsins að það sé eðlilegt að sektir séu lækkaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .