Veitingastaðurinn Icelandic Fish & Chips skilaði smávægilegu tapi sem nam 800 þúsund krónum á síðasta rekstrarári, samanborið við 7 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu rétt rúmlega 216 milljónum króna samanborið við 234 milljónir króna árið áður. Rekstrargjöld námu 216 milljónum króna samanborið við 225 milljónir króna árið áður.

Eignir félagsins námu 72 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé nam um 31 milljón króna. Laun og launatengd gjöld til starfsmanna námu 128 milljónum króna, en 65 starfsmenn störfuðu hjá félaginu í lok síðasta árs.

Erna Guðrún Kaaber er framkvæmdastjóri Icelandic Fish & Chips en hún á jafnframt 17% hlut í veitingastaðnum. Sverrir Örn Kaaber er stærsti hluthafi veitingastaðarins með 21,5% hlut.