Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir fengu um 5 milljarða króna fyrir sölu á 3,6% hlut í Bakkavör þegar félagið var skráð á markað í nóvember. Eftir skráningu héldu bræðurnir eftir meirihluta í félaginu með 50,2% hlut sem metinn er á 82,4 milljarða króna. Bakkavör er metið á 1,1 milljarð punda eða rúmlega 164 milljarða króna og hefur hækkað um 10% frá skráningu félagsins á markað í nóvember.

Meðfjárfestir bræðranna, bandaríski vogunarsjóðurinn Baupost, seldi nokkuð stærri hlut eða 68,3 milljónir hluta, um 11,8% í félaginu, á 17 milljarða króna. Samhliða skráningunni gaf félagið sjálft út 55,55 milljónir hluta, um 9,6% í félaginu, sem hefur skilað því um 12 milljörðum króna. Bakkavör hugðist nýta fjármunina til að greiða niður skuldir félagsins og fjármagna frekari fjárfestingar.

Við skráninguna var því alls 25% hlutur í Bakkavör seldur sem lækkaði hlut bræðranna úr 59,5% í 50,2% og hlut Baupost úr 40,5% í 24,8%. Bræðurnir eiga hvor um sig 25,1% hlut í Bakkavör í gegnum félög sem skráð eru á Bresku Jómfrúaeyjum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .