Samtals bárust 62 gild tilboð í byggingarrétt á lóðum í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási í útboði Reykjavíkurborgar. Þetta er umfram væntingar Reykjavíkurborgar um lóðasölu á árinu. Fram kemur í tilkynningu frá borginni að samanlagt námu hæstu tilboð tæpum milljarði króna eða upp á rétt rúmar 976 milljónir króna.

Þegar tilboðsfrestur rann út á mánudag höfðu 23 gild tilboð borist í 19 lóðir Í Úlfarsárdal með byggingarétti fyrir 107 íbúðir eða 49% þeirra íbúða sem boðnar voru. Í lausar lóðir í Reynisvatnsási höfðu borist 39 gild tilboð í  21 lóð með byggingarrétti fyrir 53 íbúðir eða 58% þeirra íbúða sem boðnar voru.

Tilboðin voru í flestum tilvikum nálægt lágmarksverði en hæsta frávik var 21% yfir settu lágmarksverði, að því er segir í tilkynningu.